Hvalveiðar

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 11:14:21 (4672)

1999-03-10 11:14:21# 123. lþ. 83.5 fundur 92. mál: #A hvalveiðar# þál. 8/123, SvanJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 123. lþ.

[11:14]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég hef litla trú á því að framkvæmd 1. og 3. mgr. þessarar tillögu leiði okkur til þeirrar niðurstöðu að hér verði hafnar árangursríkar hvalveiðar. Með árangursríkum hvalveiðum á ég við hvalveiðar sem veita okkur efnahagslega hagsæld og eru stundaðar í sátt bæði við náttúru landsins og ekki hvað síst í sátt við það umhverfi sem við eigum svo mikið undir.

Ég styð hins vegar 2. mgr. tillögunnar, sem leggur áherslu á að við stöndum við alþjóðaskuldbindingar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda. Ég leyfi mér að skilja það svo, herra forseti, að með þessari málsgrein séu menn að segja að þeir ætli að fara eftir Dagskrá 21 þar sem fjallað er um sjálfbæra nýtingu og ætli að líta á Alþjóðahvalveiðiráðið sem þá samstarfsnefnd sem þeir muni starfa með þegar veiðar á sjávarspendýrum hefjast aftur í atvinnuskyni við Ísland.