Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:14:29 (4801)

1999-03-10 23:14:29# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, Frsm. meiri hluta SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:14]

Frsm. meiri hluta (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Ég tek undir að mjög brýnt er að þessir sjúklingar fái eðlilega meðferð og það er verið að veita hana. Samkvæmt mínum upplýsingum eru fleiri sjúklingar sem þurfa að fara utan en einungis þessir. Það er eðlilegt að allir fái sömu meðferð í stjórnsýslunni. Það er eðlilegt og eðlilegt að fimm manna læknahópur fari yfir þessi mál en ekki tryggingaráð, þó að þeir fái faglega umsögn læknis.

Samkvæmt mínum upplýsingum frá siglinganefnd barst ein umsókn um meðferð fyrir psoriasissjúklinga á árinu 1996 og henni var synjað þar sem ekki var fyrirhuguð meðferð á sjúkrastofnun heldur einungis ferð á eigin vegum til Kanaríeyja. Árið 1997 bárust engar umsóknir samkvæmt upplýsingum siglinganefndar. Þetta ber reyndar ekki saman við upplýsingar sem ég hef fengið frá Spoex. Og á árinu 1998 synjaði nefndin umsóknum tveggja einstaklinga á þeirri forsendu að meðferð hefði ekki verið fullreynd á Íslandi en samþykkti hins vegar umsóknir frá sex einstaklingum árið 1998. Þetta er Spoex fullkunnugt um og þetta fólk er að fara núna bráðlega í meðferð erlendis.

Hér er því staðið faglega að málum og eðlilegt að fækki í hópi þeirra sem fara vegna bættra meðferðarúrræða. Bláa lónið hefur svo sannarlega komið þar að góðum notum. Eins og ég gat um hér fyrr eru bæði Þjóðverjar og Færeyingar að koma hingað og leita sér lækninga. Hins vegar er þetta úrræði ekki fyrir alla, fyrir suma en ekki fyrir alla.

Og þess vegna er eðlilegt að þeir sem eru verst settir og geta ekki notað eða fá ekki bót meina sinna með innlendum úrræðum og geta sýnt fram á það fari út vegna þess að þá er það örugglega sparnaður, fyrir utan það að það bætir vellíðan þessa fólks sem er ekki hægt að meta til fjár. Þess vegna er verið að senda núna sex einstaklinga á næstu dögum til Kanaríeyja í meðferðarstöð.

En það er rétt sem komið hefur fram að koma þarf málum í betri farveg til að hægt sé að panta þessi pláss og það er eitthvað sem siglinganefndin þarf að skoða.