Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:16:47 (4802)

1999-03-10 23:16:47# 123. lþ. 84.21 fundur 521. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (úrskurðarnefnd o.fl.) frv. 60/1999, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:16]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttur verður tíðrætt um jafnræðisreglur og faglega meðferð. Fagleg meðferð núverandi ríkisstjórnar á þessum hópi sjúklinga hefur gert það að verkum að frá árinu 1996 hefur aðeins einn psoriasissjúklingur fengið meðferð erlendis, enda þótt margir hafi sótt um. Staðreyndin er sú að fólk hefur, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér frá Samtökum psoriasissjúklinga, hætt að sækja um vegna þess að því hefur verið talin trú um að það þýddi ekkert. Enda hefur reyndin verið sú. (SF: Það eru sex á leiðinni.) Eru sex á leiðinni? Það þyrftu a.m.k. 40 manns að fara til útlanda á ári. (SF: Jæja.) Ég vísa þar í þau gögn sem við höfum undir höndum frá Samtökum psoriasissjúklinga.