Háskóli Íslands

Miðvikudaginn 10. mars 1999, kl. 23:59:44 (4815)

1999-03-10 23:59:44# 123. lþ. 84.26 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv. 41/1999, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[23:59]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er komið til 2. umr. frv. til laga um Háskóla Íslands. Frv. hefur fengið nokkuð vandaða umfjöllun í menntmn. eftir því sem tími gafst til því að málið kom mjög seint fram á þessu þingi. Þó virðist ljóst að mikil eining er ríkjandi um afgreiðslu málsins í heild fyrir utan eitt tiltekið atriði sem er í 18. gr. og varðar stúdentaráð Háskóla Íslands og fulltrúar stúdentaráðs hafa gert athugasemdir við þessa grein.

[24:00]

Að öðru leyti hefur tekist vel við að sætta þau sjónarmið sem voru mörg og ólík í fyrra þegar rammalöggjöfin um háskólastigið var samþykkt. Ég vil láta í ljós ánægju með það hversu vel hefur tekist til með þetta frv. í heild.

Svo ég komi aðeins nánar að 18. gr. er þar mjög athyglisverð deila sem að því er virðist er aðallega um orðalag. Þar er mjög stórt prinsippmál á ferðinni sem reyndar er komið að í nál. Í frv., í 2. tölul. 18. gr. er þetta orðað svo, með leyfi forseta:

,,Háskólaráði er heimilt að semja við stúdentaráð Háskóla Íslands, önnur félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.``

Stúdentaráð gerði athugasemdir við þetta orðalag þar sem gefið er til kynna að stúdentaráð sé félag en því hafnar meiri hluti stúdentaráðs alfarið. Stúdentráð er lýðræðislega kjörin fulltrúasamtök stúdenta og hefur verið það síðan 1920. Ráðið á því langa hefð innan háskólasamfélagsins. Í háskólaráði sitja 22 fulltrúar háskólastúdenta en ekki allir stúdentar. Því er skýrt að ekki er um félag að ræða heldur fulltrúasamkomu stúdenta.

Menntmn. fellst á að breyta þessu orðalagi, sbr. brtt. við 18. gr. á þskj. 1110. Orðalagið í brtt. er skárra en í frv. en það er ófullnægjandi að því leyti að stúdentaráð er ekki nefnt í textanum. Í brtt. segir:

,,Háskólaráði er heimilt að semja við stúdenta, samtök þeirra eða félög, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands ...``

Þar með er stúdentaráð hvergi nefnt í þessum lögum um Háskóla Íslands sem ég tel mjög miður. Þó er til bóta, eins og fram kom hjá frsm. menntmn., hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur, að í nál. er sérstaklega getið um stúdentaráð Háskóla Íslands sem samtök stúdenta og að háskólaráði sé heimilt að semja við þau um tiltekna þjónustu eins og hingað til og engin áform séu um að breyta því fyrirkomulagi.

Þessi yfirlýsing í nál. er til bóta að mínu mati. Mun æskilegra hefði hins vegar verið að nefna stúdentaráð í lagatextanum til að tryggja lagalega stöðu ráðsins. Einkum þess vegna skrifa ég undir nál. með fyrirvara.

Mér er kunnugt um að stúdentar munu sætta sig við þessa afgreiðslu málsins þó þeir hefðu fremur kosið að stúdentaráð væri nefnt í lagatextanum. Mér finnst mjög umhugsunarvert að þessi afgreiðsla á sér stað samtímis því að stúdentar fá þann gleðiboðskap að fara eigi að tillögum þeirra að hluta til, um að breyta úthlutunarreglunum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það á að fara að tillögum þeirra frá sl. ári um að hækka framfærslugrunn námslána og hækka frítekjumarkið, þ.e. þá upphæð sem stúdentar mega vinna sér inn áður en til skerðingar á námslánum kemur.

Tímasetning þessarar tilkynningar hæstv. menntmrh. er mjög skiljanleg í ljósi kosninganna sem eru fram undan og ekki síður vegna þeirra breytinga á texta sem hér hafa orðið. Þessi texti var stórpólitískt mál í stúdentaráðskosningunum í háskólanum fyrir skömmu, þar sem Röskva hélt þeim skilningi fram að stúdentaráð væri fulltrúasamkoma stúdenta en Vaka hafði aðra skoðun á málinu. Texti frv. var meira í ætt við skilning Vöku. Sú brtt. sem hér er samþykkt gefur ráðherra færi á að komast hjá því að taka skýra afstöðu til þess máls. Alla vega finnst mér mjög rausnarlega boðið af hæstv. menntmrh. að slá út 300 millj. svona rétt fyrir kosningar, kannski nokkuð óábyrgt. Þarna eru mjög miklir fjármunir í veði. Vissulega fagna ég því að stúdentar fá þessar hækkanir en furða mig á tímasetningu ákvörðunarinnar þar sem ekki var með nokkru móti hægt að gera þetta fyrir ári síðan, þegar mikið var tekist á um þessi mál í þingsölum.

En svona gerast kaupin á eyrinni. Þetta frv. um Háskóla Íslands virðist orðið nokkuð gott og ég fagna því. Ég veit að háskólamenn bíða eftir því að geta unnið eftir þessu nýja frv. Þess vegna er ég ánægð með að takast skyldi að afgreiða það á þessu þingi.