1999-03-11 00:12:23# 123. lþ. 84.26 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv. 41/1999, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[24:12]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Sú umræða sem nú hefur farið fram um þetta mál hér við 2. umr. hefur þegar leitt í ljós ákveðinn misskilning. Misskilningurinn byggist á því að hæstv. ráðherra telur hafa orðið ákveðið samkomulag í nefndinni um orðalag í frv. Hins vegar er rétt að fram komi að fyrirvari minn og hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur er einmitt við þetta orðalag. Þó að orðalagið væri ekki ásættanlegt fyrir okkur þá mátum við það þannig að lengra yrði ekki komist. Það mat okkar byggðist á umræðu sem ekki var hægt að skilja öðruvísi en svo að sú niðurstaða byggðist á ákvörðun annars staðar en í hv. nefnd. Sé einungis um ákvörðun nefndarinnar að ræða og hún geti því breytt þessu orðalagi, þá verður þess að sjálfsögðu freistað við 3. umr. Þykir mér líklegt, fyrst svona er í pottinn búið, að nefndin hefji vinnu við að breyta þessu orðalagi í þá veru sem ásættanlegri er fyrir alla.

Það er nefnilega svo, herra forseti, að menn hafa teygt sig býsna langt í ákveðnum skilningi og er dálítið merkilegt þegar í ljós kemur, hér í umræðum, að sá vilji sem menn sýndu til samkomulags hafi verið byggður á misskilningi. Ég er ansi hrædd um að hv. nefnd þurfi að endurskoða það sem hér liggur fyrir.

Svo ég fari nánar yfir það er stúdentaráð Háskóla Íslands lagt að jöfnu við önnur félög stúdenta samkvæmt texta þessa frv. Eins og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir rakti ágætlega er með þessu, eins og málið er sett fram hér, gróflega gripið inn í innri mál stúdenta við Háskóla Íslands. Eins og hér var rakið er beinlínis tekin afstaða í deilu á milli hinna pólitísku félaga háskólastúdenta. Hér er tekin afstaða gegn meiri hluta stúdentaráðs. Því er ekki óeðlilegt að sá hinn sami meiri hluti legði býsna mikið á sig til að fá fram breytingar á frv. í þá veru að það samræmdist vilja hans. Að mínu mati var stigið skref í þá átt en alls ekki það skref sem ég hefði viljað sjá. Þar vil ég fyrst og fremst nefna að það er slæmt að við skulum hafa hér frv. og brtt. við það sem munu leiða til, ef þær verða samþykktar svona, að stúdentaráð Háskóla Íslands verður hvergi nefnt í lagatextanum. Fyrst þetta er hins vegar í höndum nefndarinnar, þá tel ég víst að meiri hluti sé fyrir því í nefndinni að breyta þessu aftur í þá veru að enn ásættanlegra verði fyrir nefndarmenn og meiri hluta stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ég geri því ráð fyrir að hér verði lögð fram brtt. við 3. umr. og hún afgreidd þegar þar að kemur.

[24:15]

Þegar þetta frv. kom til 1. umr. gerði ég þrjár athugasemdir. Ein var um 18. gr. sem hefur aðallega verið gerð að umtalsefni, önnur var við orðalagið í 3. lið 13. gr., sem brtt. er um, þannig að það er ásættanlegt. Þriðja atriðinu átti ég aldrei von á að menn breyttu en taldi samt rétt að halda því til haga í umræðunni en það snýr að þjóðlífsfulltrúanum í háskólaráði. Eins og menn þekkja var tekist nokkuð á um það atriði þegar samþykkt var rammalöggjöf um háskóla og svo virðist að mönnum hafi þá verið sagt að það mundi vera hægt að ræða það atriði frekar þegar kæmi að löggjöfinni um Háskóla Íslands, hvernig vali þeirra fulltrúa yrði háttað, og eitthvert ósætti vegna þess að mönnum finnst kannski að þeirri kröfu hafi ekki verið mætt eða ekki við hana staðið. Ég var ekki viðstödd þær umræður þar sem slíkir svardagar eða loforð áttu sér stað þannig að ég vil ekki ræða það frekar en alltént fannst mér ástæða til að nefna það við umræðuna en átti svo sem ekki von á að því yrði mætt á nokkurn hátt enda var það ekki.

Aðeins frekar um efni það sem hefur þegar verið rætt í umræðunni. Hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir gat þess að í gær hefði verið tilkynnt sú ákvörðun að breyta frítekjumarki og hækka námslán og það er vissulega fagnaðarefni. Það er vissulega fagnaðarefni að hæstv. menntmrh. telur að nú séu svo rúm fjárráð að óhætt sé að ganga til þess að mæta kröfum stúdenta frá því fyrir ári og mundu sumir segja að betra væri seint en aldrei. Það vekur hins vegar athygli mína, herra forseti, ef um er að ræða tillögur frá hæstv. menntmrh. og er þá sama hvort um er að ræða hækkanir á námslánum, byggingu menningarhúsa eða hvaðeina, þá er það að mér skilst tiltölulega ábyrg afstaða að setja slíkt fram. Hins vegar ef aðrir setja fram tillögur sem kunna að kosta peninga er það óábyrg afstaða. Það er svolítið sérkennileg aðgreining sem á sér stað og væri efni í sjálfstæða umræðu um það hvernig menn forgangsraða og horfa til útgjalda úr ríkissjóði en mönnum er væntanlega enn í fersku minni hvernig hæstv. menntmrh. tók á þeim hlutum í eldhúsdagsumræðum í fyrrakvöld. Í því ljósi undrast menn kannski þessar 85 millj. sem hæstv. ráðherra ætlar að snara út úr ríkissjóði ofan á annað sem hann er búinn að vera að skrifa undir og lofa upp á síðkastið. En ábyrg afstaða eða óábyrg, það fer greinilega þannig að veldur hver á heldur, og eins og ég segi, er fagnaðarefni út af fyrir sig að forgangsröðunin skuli þó vera þessi núna. Hún hefur stundum verið önnur og verður fróðlegt að skoða niðurstöður Lánasjóðs ísl. námsmanna þegar þar að kemur. Hins vegar er það svo að með fjárlagafrv. fylgdi ákveðið yfirlit yfir sjóðinn og þar gátu menn nokkurn veginn séð hvernig fjárhagur sjóðsins var.

Ég minnist þess ekki að sérstaklega hafi verið rætt í fjárlagaumræðunni að staða sjóðsins væri slík að nú væri kostur á hækkunum og það er sérkennilegt, herra forseti, að menn skuli ekki uppgötva þessar tölur fyrr en núna, hálftíma fyrir kosningar og korteri fyrir landsfund Sjálfstfl. En eins og ég sagði áðan, batnandi mönnum er best að lifa og kannski eru fleiri matarholur sem hæstv. ráðherra á eftir að finna fyrir kosningar. Skammur tími í landsfund Sjálfstfl. en aldrei að vita nema hægt sé að boða til eins og tveggja blaðamannafunda áður en hann brestur á og tilkynna um (Gripið fram í: Meiri peninga.) meiri peninga og frekari framkvæmdir, en við skulum sjá til. Það er okkur í stjórnarandstöðunni nánast undrunarefni á hverjum degi hvaða hugmyndaflug menn hafa í þessum efnum.

Enn og aftur, herra forseti, það sem gerði það að verkum að ég skrifaði undir þetta frv. með semingi, þ.e. með fyrirvara, var í rauninni íhlutun um innri málefni Háskóla Íslands, stúdenta að þessu sinni, sem mér fannst dálítið merkileg og er alls ekki sátt við þá niðurstöðu þó svo ég hafi skrifað undir þetta nál. og byggir fyrirvari minn á því. Ég mat það hins vegar þannig að lengra yrði ekki komist því að eins og ég sagði, var ýmislegt sem benti til þess að þvergirðingshátturinn hvað varðaði orðalagið ætti sér upptök og endi annars staðar en í nefndinni sjálfri en fyrst svo er ekki þá tel ég einsýnt að það verði hægt að breyta þessu orðalagi og gera það ásættanlegra bæði fyrir okkur í nefndinni og stúdentaráð Háskóla Íslands.