1999-03-11 00:24:44# 123. lþ. 84.26 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv. 41/1999, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[24:24]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Misskilningur á misskilning ofan. Hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki tekið eftir því að okkur finnst það fagnaðarefni að hann skuli hafa fundið þessa matarholu. Við óskuðum þess bara að hann hefði fundið hana fyrr. Okkur finnst það svolítið seint á ferðinni að verða að hækka námslán og hækka frítekjumark rétt fyrir kosningar.

Fyrir ári óskuðu stúdentar eindregið eftir að það yrði gert sem nú er verið að gera og það hefði verið eðlilegra að við því hefði verið brugðist þá en ekki nú.

Aðeins vegna stöðu stúdentaráðs Háskóla Íslands. Ég tók eftir því að ráðherra lítur þetta mál með ákveðnum hætti. En það er bara ekki sama mat sem liggur til grundvallar hjá hæstv. ráðherra og hjá nefndarmönnum. Þess vegna var farið í það, herra forseti, eftir að þessar brtt. lágu fyrir og eftir að ljóst var að ekki var hægt að komast lengra í lagatextanum sjálfum að skrifa inn í nál. ákveðna hluti. Það mátti, en þar stendur:

,,Lögð skal áhersla á að háskólaráði er heimilt að semja við ýmsa aðila,`` --- og taki menn nú eftir --- ,,t.d. stúdentaráð Háskóla Íslands sem samtök stúdenta, ...`` --- lesist: í lagatextanum stendur: samtök stúdenta og það má skilja það sem stúdentaráð Háskóla Íslands. Svo stendur hér að það hafi komið fram í máli fulltrúa Háskóla Íslands að engin áform væri uppi um að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur.

Maður veltur því auðvitað fyrir sér, herra forseti, af hverju mátti ekki segja þessa hluti í lagatextanum, það mátti bara segja þetta í nál. Því segi ég að það er einhver misskilningur í málinu sem þarf að taka á og af því að ráðherrann sagði áðan að þetta væri alfarið mál nefndarinnar sé ég ekki að það breyti miklu hvernig hæstv. ráðherra lítur á þetta, hvort hann lítur á þetta sem svo að það veiki ekki stöðu stúdentaráðs eða með öðrum hætti. Ég skildi hann þannig í ræðu hans áðan að þetta væri mál nefndarinnar og þangað til annað kemur fram mun ég líta svo á.