1999-03-11 00:31:11# 123. lþ. 84.26 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv. 41/1999, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[24:31]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi væri fróðlegt að vita, fyrst hv. þm. talar um sátt, við hverja þessi sátt var gerð. Það væri upplýsandi vegna þess að þannig mætti kannski nálgast það hvar misskilningurinn í málinu liggur. Við hverja var sáttin gerð og um hvað snerist hún?

Í öðru lagi fyndist mér líka áhugavert að heyra frá hv. þm. hvort honum þætti ekki lagatextinn betri ef hér yrði samþykkt brtt. þar sem stúdentaráð Háskóla Íslands kæmi fyrir í lagatexta eins og er ósk bæði meiri hluta stúdentaráðs og hefur komið fram að er vilji minni hluta nefndarinnar. Hitt um gleðina vegna námslánanna er ekki svara vert.