1999-03-11 00:34:27# 123. lþ. 84.26 fundur 509. mál: #A Háskóli Íslands# (heildarlög) frv. 41/1999, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 123. lþ.

[24:34]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég vil gera brtt. á 18. gr. að umtalsefni. Það er alveg skýrt að hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir og Svanfríður Jónasdóttir voru með fyrirvara við nál. Þær hafa gert grein fyrir honum hér. Fyrirvarinn laut að því að þær voru ekki fullkomlega sáttar við orðalagið á 2. mgr. 18. gr. og hefðu viljað hafa það öðruvísi. Það var hins vegar tillaga formanns nefndarinnar að orðalagið yrði þetta og það varð niðurstaða nefndarinnar.

Ég vil benda á að það er algerlega í valdi Háskóla Íslands og háskólaráðs hvernig þessari heimild verður beitt. Ég vil líka benda á að ekki er nauðsynlegt að setja heimild af þessu tagi inn í frv. um Háskóla Íslands vegna þess að í fjárreiðulögunum er heimildin fyrir hendi. Það var því engin nauðsyn að festa þetta inni í þennan lagatexta eins og hér er gert. Ég vil alveg sérstaklega leggja áherslu á að það er algerlega í valdi Háskóla Íslands hvernig þessari heimild er beitt og það er á engan hátt verið að hlutast til um það hvernig háskólinn mun beita henni.