Tilhögun þingfundar

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 12:58:13 (4950)

1999-03-11 12:58:13# 123. lþ. 86.94 fundur 359#B tilhögun þingfundar#, Forseti RA
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 123. lþ.

[12:58]

Forseti (Ragnar Arnalds):

Forseti vill upplýsa þingmenn um hvaða áætlanir eru uppi um þinghald í dag. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt eru áætlanir um þinghaldið úr lagi gengnar og verður að gera nýja áætlun. Orðið hefur samkomulag um hvernig þingstörfum verður hagað í dag og ætlar forseti að fara yfir það.

Þingfundur mun nú standa í 15 mínútur til viðbótar og verður tíminn nýttur til þess að afgreiða það sem hægt er að afgreiða á þeim tíma. Þá verður fundi frestað vegna jarðarfarar en í dag er jarðsettur fyrrv. alþingismaður, Ólafur Björnsson. Fundur hefst síðan að nýju klukkan 14.30 og fer þá fram umræða um skýrslu sem fram átti að fara fram einmitt á þessum tíma en verður að fresta. Það hefur orðið að samkomulagi að sú umræða standi í eina klukkustund í staðinn fyrir að áður hafði verið talað um að hún stæði í eina og hálfa klukkustund.

Sjútvn. hefur verið að störfum og er tilbúin með nýtt frv. sem þó er ekki tilbúið til útbýtingar. Frv. kemur því ekki fram áður en gert verður hlé, en gert er ráð fyrir því að mjög stutt umræða fari síðan fram um það að lokinni umræðu um skýrsluna. Gert er ráð fyrir því að sú umræða standi einungis í um 20 mínútur. Ef allt fer sem horfir þá ætti að vera möguleiki á því að þingfrestun gæti orðið um kl. fjögur í dag.