Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 14:47:47 (4959)

1999-03-11 14:47:47# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[14:47]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hagur öryrkja hefur sífellt orðið betri, segir í skýrslu forsrh. og bætt er um betur þegar sagt er að kaupmáttur bóta hafi aukist og þjónusta við þá einnig. Þessi sýn ríkisstjórnarinnar á kjör öryrkja er hrein blekking og leikur með tölur. Sé þessi mynd rétt sem hæstv. ráðherra dregur fram í skýrslu sinni er engu líkara en fulltrúar á ráðstefnu sem haldin var í Ráðhúsinu nýlega á vegum Sjálfsbjargar hafi verið að lýsa kjörum öryrkja í einhverju allt öðru landi en á Íslandi en þar var lýst hreinu neyðarástandi hjá öryrkjum.

Í skýrslu hæstv. ráðherra kemur hann sér hjá því að svara hve margir öryrkjar hafi þurft að leita til hjálparstofnana utan opinbera kerfisins en á ráðstefnu öryrkja fyrir hálfum mánuði kom fram að um 1.100--1.300 öryrkjar hafi árlega á undanförnum árum þurft að leita neyðaraðstoðar hjá Hjálparstofnun kirkjunnar og hafi þeim fjölgað mikið síðustu árin, þ.e. á þessu kjörtímabili. Staðreyndin er sú, sem hæstv. ráðherra kemur sér hjá að skrifa í skýrsluna, að helmingur þeirra sem leita ásjár hjá hjálparstofnunum í dag eru öryrkjar og hann svarar því ekki einu sinni þótt um það hafi verið spurt í skýrslunni. Um þetta sagði félagsfræðingur hjá Hjálparstofnun kirkjunnar á ráðstefnu orðrétt, með leyfi forseta:

,,Þetta er fólk, sem hefur tekjur, sem duga ekki út mánuðinn, fólk, sem kemur til að fá mat í poka til þess að lifa af.``

Í skýrslu hæstv. ráðherra er víða að finna alranga mynd sem dregin er upp af kjörum öryrkja til að reyna að fegra myndina og allvíða er bara dreginn fram hálfsannleikur í málinu. Í það er látið skína að grunnlífeyrir og tekjutrygging sé hærri hér á landi en t.d. í Finnlandi og Svíþjóð, en staðreyndin er sú að í samnorrænni skýrslu þar sem gerður er samanburður á raunverulegum greiðslum til örorkulífeyrisþega hér á landi og á hinum Norðurlöndunum kemur í ljós að öryrkjum eru hvergi greiddar eins lágar bætur og á Íslandi og þær eru að jafnaði um tvöfalt lægri hér á landi. Þegar skoðuð eru útgjöld á hvern íbúa á Norðurlöndum í þessari samnorrænu skýrslu kemur fram að útgjöld vegna bótagreiðslna eru meira en helmingi lægri á hvern íbúa hér á landi samanborið við hin Norðurlöndin. Þetta eru staðreyndir málsins sem liggja fyrir í samnorrænni skýrslu þrátt fyrir það sem fram kemur í skýrslu ráðherrans þar sem reynt er að draga upp mikinn blekkingarvef af kjörum og aðbúnaði öryrkja.

Sannleikurinn er líka sá að heildarútgjöld Tryggingastofnunar vegna grunnlífeyris og tekjutrygginga, sem eru meginbótaflokkarnir, eru að meðaltali um 34 þús. kr. á hvern öryrkja en ekki 52 þús. kr. eins og sagt er í skýrslunni. Sannleikurinn er líka sá, eins og kom fram á öryrkjaráðstefnu í Ráðhúsinu, að þrír af hverjum fjórum örorkulífeyrisþegum hefur aðeins 45 þús. kr. í framfærslu á mánuði.

Staðreyndin sem hæstv. forsrh. horfir fram hjá í skýrslu sinni er að stærstur hluti örorkulífeyrisþega á Íslandi er undir skilgreindum fátæktarmörkum sem notuð hafa verið bæði hér á landi og annars staðar í Evrópu og var sú viðmiðun notuð í nýlegri rannsókn OECD-landanna í tekjuskiptingunni. Þessi fátæktarmörk eru 44 þús. kr. fyrir einstakling og 66 þús. kr. fyrir einstætt foreldri með barn. Þannig er stærsti hluti öryrkja með tekjur undir skilgreindum fátæktarmörkum.

Því má heldur ekki gleyma og ber að halda til haga hvert var fyrsta verk þessarar ríkisstjórnar á kjörtímabilinu. Það var að skera á tengsl bóta og lægstu launa. Afleiðingin er sú að á síðustu fimm árum hafa lágmarkslaun hækkað um 52% en örorkulífeyrir og tekjutrygging einungis hækkað um 17,4%. Hækkunin er því einungis þriðjungur þess sem hún hefði að óbreyttu átt að vera ef bætur lífeyrisþega hefðu haldist í hendur við lægstu laun.

Það er einnig ástæða til að halda því til haga í þessari umræðu að öryrkjum sem fá bílastyrk hefur á þessu kjörtímabili fækkað úr 600 í 300 og vextir á þeim öryrkjum sem fá bílakaupalán hafa verið hækkaðir úr 1% upp í markaðsvexti. Á þessum hópum sem verst eru staddir í þjóðfélaginu voru vextir hækkaðir úr 1% upp í markaðsvexti og þeim fækkað sem geta fengið bílastyrki. Þetta er bara eitt dæmi af mörgum um það hvernig ríkisstjórnin hefur farið með öryrkja og reyndar aldraða líka á þessu kjörtímabili.

Það sem er líka athyglisvert í skýrslunni er hve gífurlega stór hópur öryrkja er hreinlega sviptur mannréttindum vegna skerðingar á tekjum maka. Fjöldi þeirra hefur aukist úr 1.664 í 2.335 á þessu kjörtímabili eða um 40%, hvorki meira né minna. Ég bendi einnig á að 43% öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóðum og flestir öryrkjar sem fá greiðslur á annað borð úr lífeyrissjóðum eru með þetta á bilinu 10--30 þús. kr. á mánuði. Það er allt of sumt.

Við skulum bera það saman við lífeyrisgreiðslutoppana í kerfinu, t.d. í bönkunum sem hafa 300--400 þús. kr. úr sínum lífeyrissjóði á mánuði. Berum það saman við 10, 20 eða 30 þús. sem öryrkjar hafa úr sínum lífeyrissjóði.

Þessi skýrsla er líka morandi af dæmum um hvernig hægt er að fara frjálslega, svo vægt sé til orða tekið, með tölur. Talað er um að kaupmáttur lífeyrisþega sem fá óskertar lífeyrisuppbætur hafi hækkað um 14% á fimm árum. En hvað eru það margir öryrkjar sem hafa fengið 14% hækkun á fimm árum, þ.e. þeir sem eru með óskertar heimilisbætur? Þeir eru á milli 5 og 6% af heildinni eða 400 öryrkjar af 7.400 og jafnvel þessi 14% hækkun kaupmáttar hjá þeim 400 öryrkjum sem mesta kaupmáttar hafa notið stenst ekki samanburð við launavísitöluna sem hækkaði um 20%, hvað þá sú 7% kaupmáttaraukning sem flestir öryrkjar hafa þurft að búa við.

Hér kemur hæstv. fjmrh. og státar sig af kjörum öryrkja eins og allt sé bara í himnalagi. Ég minni hæstv. ráðherra á þegar öryrkjar fjölmenntu fyrir utan þinghúsið í þöglum mótmælum til þess að mótmæla kjörum sínum og aðbúnaði. Þetta er allt önnur mynd sem ráðherra dregur upp af kjörum þeirra.

Grófasta blekkingin í skýrslu ráðherra er þessi. Í upplýsingum sem komu fram um tekjur öryrkja og heildardreifingu þeirra er m.a. tiltekið í skýrslunni að sleppt sé að reikna þá öryrkja með sem eru með tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum, þ.e. verst stöddu öryrkjarnir. Hver eru þessi viðmiðunarmörk í skýrslunni? Jú, þau eru sett við 75% af samtölu óskerts örorkulífeyris og tekjutryggingar eða við 30 þús. kr. Sem sagt, öryrkjum sem eru með tekjur undir 30 þús. kr. er sleppt þegar verið er að setja upp töflur um tekjur öryrkja. Svo virðist sem í öllum útreikningum sé verst settu öryrkjunum sleppt sem skekkir auðvitað alla myndina og gerir þessa skýrslu ráðherrans nánast að marklausu plaggi allt í þeim tilgangi að stuðla að einhverri hagstæðari útkomu fyrir öryrkja.

Herra forseti. Hvað sem líður kosningabrellum og reikningskúnstum í skýrslu hæstv. ráðherra, þá er það, herra forseti, galtóm pyngja öryrkjanna sem ekki lýgur. Hún segir okkur að 1.200--1.300 öryrkjar þurfi að fá mat í poka hjá Hjálparstofnun kirkjunnar til þess að geta lifað. Hún segir okkur að helmingur þeirra sem leita ásjár hjá hjálparstofnunum í landinu í dag eru öryrkjar og það á tímum góðæris sem þessi ríkisstjórn er að státa sig af. Á tímum besta góðæris sem við höfum lifað í langan tíma, þá þarf fjöldi öryrkja að leita til hjálparstofnana til þess að geta fengið mat í poka frá þeim.

Skýrslan segir okkur líka að stærsti hluti öryrkja sé undir fátæktarmörkum og hún segir okkur að þetta velferðarþjóðfélag, Ísland, búi öryrkjum kjör sem eru til skammar fyrir íslenskt þjóðfélag. Hún segir okkur að öryrkjar séu í baráttu sem snýst ekki bara um mannsæmandi kjör og að geta lifað með fullri reisn í íslensku samfélagi, heldur um þau mannréttindi að eiga til hnífs og skeiðar frá degi til dags. Það er hinn blákaldi veruleiki sem þessi þjóðfélagshópur stendur frammi fyrir nú í lok kjörtímabils ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar.