Aðbúnaður og kjör öryrkja

Fimmtudaginn 11. mars 1999, kl. 15:24:27 (4964)

1999-03-11 15:24:27# 123. lþ. 87.1 fundur 198. mál: #A aðbúnaður og kjör öryrkja# beiðni um skýrslu frá forsrh., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur, 123. lþ.

[15:24]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Upp er runninn nýr dagur í íslensku samfélagi. Tekjuöflun ríkisins er önnur í lok kjörtímabilsins en hún var, aðhald og sparnaður er að skila sínu. Það er kraftur í atvinnulífinu, það er mikil kaupmáttaraukning.

Fátækur maður og fátæk þjóð hefur jafnan lítið aflögu til síns minnsta bróður. Félagshyggjan deyr við slíkar aðstæður eins og menn þekkja úr ýmsum samfélögum. Hér stöndum við frammi fyrir breyttu þjóðfélagi. Framsfl. er tiltölulega sáttur við störf sín á þessu kjörtímabili og sér mikinn árangur. Hann gerir sér grein fyrir því að þjóðin hefur nú meiri tekjur og okkar minnstu bræður eru þegar farnir að njóta þess. Hér er því að verða töluverð breyting á.

Ég ætla ekki að ásaka stjórnarandstöðuna fyrir góðan hug. Fyrst og fremst verða menn að skilja hvernig þjóðfélagið rekur sig. Það þarf tekjur, það þarf öflugt þjóðfélag til að standa undir mikilli samhjálp. Framsfl. og Alþfl. byggðu upp við hið félagslega kerfi sem við höfum stuðst við á þessari öld. Við megum ekki alltaf tala eins og allt sé í rúst í þessum efnum. Það er rangt og mér gremst jafnan þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson talar úr þessum ræðustól eins og hann einn í þessum sal beri mannúð og samhjálp fyrir brjósti. Þetta er rangt. Það býr í okkur öllum mannúð og samhjálp.

Formaður Framsfl. hefur lýst því yfir að næsta verkefni áður en komi til frekari skattalækkana sé að sinna þeim sem verst séu staddir, öryrkjum, öldruðum á lágmarksbótum og barnafólkið eigi einnig að koma þar að borðinu. Ég spyr hv. 12. þm. Reykv., Ögmund Jónasson: Er ekki enn til fátækt í BSRB? Þarf alltaf að skammast svona?

Ég segi svo að lokum, hæstv. forseti: Hæstv. heilbrrh. Ingibjörg Pálmadóttir hefur staðið vaktina á þessu kjörtímabili. Hún stendur teinrétt í lok þess. Þjóðin skilur að hjarta hennar slær með hinum minnsta bróður. Við sjáum að verk hennar eru að skila árangri. Þrír kratar hrökkluðust frá störfum á síðasta kjörtímabili. Við höfum staðið vaktina. Hæstv. ráðherra hefur gert það með prýði og nú er staða þjóðfélagsins þannig að hið stóra verkefni, að bæta kjör þeirra sem eru á örorkubótum og aldraðra og þeirra sem búa við lægstu kjör, er að gerast hægum og föstum skrefum. Þeir hafa þegar fengið sinn skerf og ég tel aðstæður til að ná þjóðarsátt um þessi málefni eins og hæstv. heilbrrh. rakti þannig að öryrkjar og aldraðir búi við miklu betri kjör á næstu árum ef gangur þjóðfélagsins verður með sama hætti og hann hefur verið þetta kjörtímabil. Vera kann þó að upplausnarúrræði Samfylkingarinnar geti komið í veg fyrir slíkt.