Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 14:15:02 (232)

1998-10-08 14:15:02# 123. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (húsaleigubætur) frv., 7. mál: #A húsaleigubætur# (breyting ýmissa laga) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[14:15]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það var með ólíkindum að hlýða á málflutning hv. þm. Svavars Gestssonar. Þar var þvílík eymd og volæði og það mitt í öllu góðærinu. Það er nefnilega þannig að raunlaun, ráðstöfunartekjur heimilanna, hafa stóraukist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Ráðstöfunartekjur launþega hafa stóraukist. Í kjölfarið hafa ráðstöfunartekjur öryrkja og annarra bótaþega líka aukist en reyndar ekki eins mikið.

Herra forseti. Hvergi í heiminum er til gott velferðarkerfi nema að baki því standi mjög sterkt efnahagslíf. Það sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að vinna að er að styrkja efnahagslífið og gera það heilbrigt. Það er að verða heilbrigt og veitir öllum vinnu sem hafa vilja. Atvinnuleysið er nánast að verða núll. Þar af leiðandi getum við byggt upp miklu betra velferðarkerfi. Ég ætla að minna hv. þingmenn á stöðuna árið 1993 þegar allt var í kaldakoli og svartsýni ríkti alls staðar eða þar á undan og hvernig velferðarkerfið var þá skert og skert og skert. Það er rétt að stefna að heilbrigðu efnahagslífi, í kjölfarið getum við byggt upp heilbrigt velferðarkerfi.