Fangelsismál

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:29:06 (274)

1998-10-12 15:29:06# 123. lþ. 7.1 fundur 44#B fangelsismál# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:29]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. dómsmrh. um hlutverk lögreglunnar í heilbrigðisþjónustu og þjónustu við geðsjúka í fangelsum.

Í heimsókn heilbrn. á sjúkrahúsin í Reykjavík fyrir tveim til þremur árum kom fram að eftir að sjúkrahúsin þurftu að draga saman þjónustu vegna fjárskorts þyrfti stundum að kalla til lögreglu á geðdeildum til aðstoðar í erfiðum tilfellum. Þetta kom okkur mörgum á óvart. En það kom mér algjörlega í opna skjöldu þegar það henti í síðustu viku að sjúklingur sem hafði leitað sjálfur á geðdeild vegna þess að hann fann að hann var að verða sjúkur, var fluttur í fangageymslu lögreglunnar af sjúkrahúsinu þegar hann fékk mjög slæmt kast að næturlagi. Og hann var lokaður inni í fangageymslunni þangað til næsta dag.

[15:30]

Nú spyr ég hæstv. dómsmrh. þar sem ég tel að þetta hljóti að vera undantekningartilvik: Er honum kunnugt um að þetta hafi gerst oft áður? Einnig vil ég spyrja hvort þetta sé ný stefna hjá ríkisstjórninni, hvort þetta sé ný verkaskipting milli heilbrrn. og dómsmrn., að þeir grípi inn í erfið tilvik í geðheilbrigðisþjónustunni á þennan hátt. Ég spyr einnig: Er einhver heilbrigðisþjónusta í fangageymslum lögreglunnar, t.d. hér í Reykjavík, þegar fársjúkt fólk er tekið af sjúkrahúsi þar sem það er innritað og lokað inni í fangaklefa?