Meðferðarúrræði fyrir unga fíkniefnaneytendur

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:36:43 (281)

1998-10-12 15:36:43# 123. lþ. 7.1 fundur 45#B meðferðarúrræði fyrir unga fíkniefnaneytendur# (óundirbúin fsp.), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:36]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hefja máls á þessu. Við undirbúning fjárlaga á síðasta vori héldum við að þau meðferðarúrræði sem tiltæk eru og koma í gagnið á þessu ári væru viðunandi. Hins vegar hefur það aldrei verið leyndarmál að hækkun lögræðisaldurs mundi þyngja mjög á félmrn. í þessu tilfelli. Tveir árgangar bætast við og 90 millj. hafa verið nefndar sem rekstrarkostnaður meðferðarúrræða fyrir þessa tvo árganga.

Nú gerist því miður og það er hryllileg staðreynd að neysla virðist aukast sérstaklega í árganginum sem fæddur er 1982. Meðferðarúrræðin eru fullnýtt, þ.e. þeir útskrifast ekki 16 ára heldur fá þeir meðferð áfram. Ég tók málið upp í ríkisstjórn í síðustu viku. Það verður að endurskoða fjárlagaupphæðina í frv. og við þurfum meiri peninga í þennan málaflokk. Í undirbúningi eru bráðabirgðaráðstafanir til þess að stytta biðlista, að taka neyðarvistunina út af Stuðlum þar sem hún er núna og koma henni annars staðar fyrir til að fjölga greiningarplássunum. Þá væri hægt að auka afköst greiningarþjónustunnar um 50%.

Ég mun taka upp viðræður við Reykjavíkurborg um hentugt húsnæði til að koma neyðarvistuninni fyrir. Jafnframt því þurfum við að fá aukið húsrými í Varpholti í Eyjafirði sem er í eigu Ríkisútvarpsins.