Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 11:18:23 (503)

1998-10-16 11:18:23# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[11:18]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að benda hv. síðasta ræðumanni á að t.d. til Krabbameinsfélagsins streyma upplýsingar frá nánast öllum sjúkrastofnunum landsins og þær upplýsingar eru notaðar í mjög athyglisverðum rannsóknum og mjög nauðsynlegum rannsóknum án þess að upplýst samþykki sé fengið.

Ef menn ætla sér að gera kröfuna um upplýst samþykki að meginreglu eru menn að gera mjög harkalega kröfu sem getur orðið til þess að þrengja alvarlega það svigrúm sem við höfum til þess að stunda þá heilsugæslu sem við stundum í dag. Ég vildi mælast til þess við hv. þm. að hann stilli kröfum sínum um þetta í eitthvert skynsamlegt hóf.