Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 12:11:19 (516)

1998-10-16 12:11:19# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[12:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í þessum hraða heimi vísinda og uppgötvana er ekki hægt að vinna hlutina smátt og smátt, það er ekki hægt að vinna þá hægt vegna þess að hraðinn er svo mikill og samkeppnin svo mikil að ef við ætluðum að fara í rólegheitunum með fjárveitingu íslenska ríkisins sem er kannski 100 millj. á hverju ári eða eitthvað af þeirri stærðargráðu og ætluðum smátt og smátt að fara að vinna upp svona grunn, þá næðist það ekki. Það væri búið að finna upp það sem við ætluðum að finna upp löngu áður en við byrjuðum á því. Þennan grunn þarf að vinna mjög hratt og það verður ekki gert nema með frumkvæði og atbeina fjármagns sem krefst arðs og mikils fjármagns, nánast ótakmarkaðs fjármagns.