Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 12:35:23 (519)

1998-10-16 12:35:23# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[12:35]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði í upphafi ræðu sinnar að við ættum fyrst og fremst að vernda persónufrelsið. Ég reikna með að með þeim orðum eigi hann að við það að við eigum fyrst og fremst að gæta persónuverndar í sambandi við þessa upplýsingagrunna.

Nú hefur okkur tekist án miðlægs gagnagrunns, þ.e. í því ástandi sem nú er, að nýta upplýsingar úr heilbrigðiskerfinu til að ná mjög athyglisverðum árangri í læknavísindum og læknisfræðilegum úrræðum. Þetta hefur tekist án þess að skaða persónufrelsið eða persónuverndina með því að virða trúnað, með því að stunda vandvirkni og með því að nýta ýmis tæknileg varúðarúrræði eins og dulkóðun. Þetta hefur okkur tekist nú í dag. Þetta hefur tekist þrátt fyrir þá viðurkenndu staðreynd, hæstv. forseti, að upplýsingarnar séu mjög óaðgengilegar í því formi sem þær eru geymdar nú. Þá spyr ég: Hvers vegna, hv. þm., eigum við að hafna því að nýta bestu fáanlega tækni til að útbúa stórum öflugra vopn í baráttunni gegn sjúkdómum en við höfum í höndunum í dag ef okkur tekst að standa þannig að málum að ásættanleg persónuvernd náist?

Í öðru lagi ætla ég að segja það við hv. þm. að hann heldur að við getum hugsanlega skaðað trúnaðartraust milli lækna og sjúklinga. En þetta trúnaðartraust hefur ekki beðið skaða af því þótt upplýsingar hafi verið notaðar með persónutengdum upplýsingum og þær samkeyrðar í gagnabönkum sem hafa verið dulkóðaðir. Þetta er allt í gangi í dag og hefur ekki skaðað trúnaðartraust milli lækna og sjúklinga.