Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 14:21:50 (533)

1998-10-16 14:21:50# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[14:21]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Það að skapa mónópól eins og hv. þm. Pétur Blöndal kemur inn á er engin forsenda fyrir því að vinna þessa vinnu. Það er hægt að nota allar mögulegar aðrar formúlur. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði í morgun að menn þyrftu að skilgreina verkefnin, skilgreina hvað þeir ætluðu að fara í. Það er meginmál að menn upplýsi hvað þeir ætli að fara að gera. Ef upplýsingarnar liggja ekki í tölvutæku formi úti í samfélaginu þá getur opinber stofnun eftir slíka skilgreiningu, þ.e. á því hvað menn ætla að fara í, veitt mönnum leyfi til þess gegn gjaldi að fara í þessar upplýsingar til þess að vinna úr þeim. Menn eru fastir í þessu formi vegna aðdragandans sem ég var að nefna áðan. Aðkoman að málinu er röng og við skulum bara viðurkenna það að þingið er í þeim fasa núna að það er að búa til ramma utan um hugarfóstur eða verkefni sem fór langt fram úr mönnum vegna þess að þeir fóru ekki í þessa efnislegu umræðu sem var nauðsynleg. Á þetta var ég að benda mönnum.

Ég held að staðan hefði verið allt önnur í þinginu ef menn hefðu nálgast verkefnið út frá þeim forsendum sem ég var að nefna, ekki út frá forsendum um það hvað þetta gæfi mikið í aðra hönd, en þannig fór umræðan af stað. Peningar, atvinna sem er að vísu peningar líka og síðan þetta þjóðlega að ná heim sprenglærðu fólki o.s.frv., þetta er allt í sjálfu sér gott en nálgunin er röng. Það er hægt að ná öllum þessum markmiðum sem við erum að leita eftir með öðrum formúlum og á það er ég að benda.