Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 15:11:52 (540)

1998-10-16 15:11:52# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., LMR (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Lára Margrét Ragnarsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hér upp aðeins vegna þess að ég heyrði hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur ræða um frumkvöðulsstarf á sviði erfðavísindanna á Íslandi. Mig langar til að benda sérstaklega á þá vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum árum og áratugum í þeim fræðum. Ég man eftir, jafnvel 30 ár til baka, þegar Ólafur Jensson, prófessor í blóðmeinafræði og blóðbankastjóri, og sömuleiðis John Benedikz voru að vinna að rannsóknum sínum þar sem þeir tóku ekki eingöngu sjúkrasögu viðkomandi einstaklings og hugsanlega sjúkrasögur úr fjölskyldunni sem gætu tengst viðkomandi og skráðu niður umhverfið sem einstaklingurinn bjó í, heldur tóku þeir skipulega niður ættartölu og skoðuðu ættartölu þessara manna jafnvel langt aftur í aldir og fundu út ákveðin tengsl.

Jafnframt vil ég segja það að fyrir um 15 árum man ég mjög greinilega eftir því að rætt var um möguleika upplýsingatækninnar í framtíðinni til að standa að þeim rannsóknum sem við munum sjá á næstunni. Og þess vegna er gleðilegt að nú skulum við vera með í höndunum þá upplýsingatækni sem til þarf til að stunda svona rannsóknir.