Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 11:21:13 (595)

1998-10-22 11:21:13# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[11:21]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. til leiklistarlaga sem lagt er fram öðru sinni. Ég tók ekki þátt í umræðunni í fyrra og fylgdist ekki nógu grannt með málinu. Hins vegar er ég mikil áhugamanneskja um leikhús og leiklist og vil í upphafi nefna að við búum við ótrúlega blómlegt leikhúslíf á Íslandi, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.

Ég minnist þess að snemma hausts eða síðla sumars, eftir því hvernig maður lítur á það, birtist heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu frá sjálfstæðum leikhópum á höfuðborgarsvæðinu. Ég man ekki tölu þeirra en þeir voru ótrúlega margir. Allir þeir hópar og hin blómlega starfsemi í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og víðar um landið sýnir að hér er gríðarlegur áhugi á leiklist, enda leikhúsin ótrúlega vel sótt. Það gengur hins vegar upp og ofan eftir því hvernig sýningarnar eru og ýmis leikhús hafa lent í erfiðleikum eins og Borgarleikhúsið fyrir skömmu. Eins hafa borist fréttir af því að leikhúsið á Akureyri sé nú rekið með halla.

Þá kemur að grundvallarspurningu: Hvernig á ríkisvaldið að styðja við bak leiklistarinnar í landinu? Ég tel það gríðarlega nauðsynlegt og get tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að leiklistarlíf úti á landi er eitt af því sem gerir lífið þar fjölbreyttara og gæti frekar orðið til þess að halda í fólk. Hin mikla umræða um byggðaþróunina er mál sem tengist fjöldamörgum þáttum þjóðlífs okkar, ekki bara atvinnulífinu heldur einnig menningu, menntun, félagslegum aðbúnaði og öðru.

Þar sem ég tók ekki þátt í þessari umræðu í fyrra þá langar mig að velta vöngum yfir einstökum greinum og breytingum á þeim frá því í fyrra. Ég lít þannig á að hér sé um rammalöggjöf á sviði leiklistar að ræða. Síðan er fléttað inn í þennan lagabálk lögum um Þjóðleikhúsið sérstaklega en það er ríkisstofnun sem alfarið er kostuð af ríkinu auk þeirra tekna sem leikhúsið sjálft aflar sér.

Ef ég vík fyrst að Þjóðleikhúsinu þá vakna ýmsar spurningar, t.d. varðandi það sem snýr að 5. gr. frv. þar sem hlutverk Þjóðleikhússins er skilgreint. Í greinargerðinni kemur fram að greininni hefur verið breytt og dregið úr skyldum Þjóðleikhússins. Ég spyr því: Er rétt, í lagabálki af þessu tagi, að skylda leikhúsið til flutnings ákveðinna tegunda verkefna? Í gömlu lögunum var m.a. tekið fram að Þjóðleikhúsið skyldi standa árlega að ýmiss konar sýningum. Hér er þetta ,,árlega`` að mestu tekið út úr greininni en þó ekki alveg. Þó að ég geri mér fulla grein fyrir því að t.d. lagaákvæði um að Þjóðleikhúsið skyldi setja upp óperu hafði ómetanlega þýðingu fyrir óperuflutning hér á landi spyr ég mig samt hvort þetta er nauðsynlegt í lagagreininni í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið hafa. Ég tek þó undir það að samstarf Þjóðleikhússins við ýmsa aðra leikhópa eins og Íslensku óperuna og fleiri er sjálfsagt. Ég set hins vegar spurningarmerki við það hvort nauðsynlegt sé að tíunda þannig hlutverk leikhússins.

Tekið er fram að flytja skuli verk sérstaklega ætluð börnum. Þetta ætti að vera svo sjálfsagt mál að það þyrfti ekki að taka það fram í lögum. En það er alltaf spurning hvort það sé rétt að hafa skyldur af þessu tagi.

Þess er og getið að á vegum Þjóðleikhússins skuli árlega farnar leikferðir sem víðast um landið. Þetta hefur reynst óframkvæmanlegt fyrir Þjóðleikhúsið, ekki síst vegna mikils kostnaðar þó að það hafi vissulega reynt að leggja sitt af mörkum, m.a. er ein sýning á þeirra vegum norður á Akureyri um þessar mundir. Þetta eru býsna þungar skyldur sem þarna eru lagðar á leikhúsið en það er rökstutt með því að þetta sé þjóðleikhús og allir landsmenn eigi að njóta þess sem þar er boðið upp á. En í þessu felst ansi mikil skylda.

Þá kem ég að skipun þjóðleikhússtjóra til fimm ára í senn, að fenginni umsögn þjóðleikhúsráðs. Ég lít þannig á að hér sé verið að aðlaga ráðningu þjóðleikhússtjóra þeim reglum sem almennt gilda um opinbera starfsmenn, þ.e. um embættismenn, og þjóðleikhússtjóri þarf að búa við að staða hans verði auglýst á fimm ára fresti. Þó að það sé rétt sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, að þetta gæti leitt til þess að þjóðleikhússtjóri yrði skipaður aftur og aftur, þá er þetta sú regla sem gildir um opinbera embættismenn og reyndar stundum strangari. En þetta er ekki mikið öryggi fyrir embættismenn. Þeir voru ekki aldeilis sáttir við þessa breytingu þegar hún var gerð á sínum tíma.

Þetta er alltaf mikið álitamál. Eiga aðrar reglur að gilda um listastofnanir en aðrir stofnanir? Almennt hefur verið litið þannig á að það væri bæði hollt og nauðsynlegt fyrir listastofnanir að þar væri skipt um stjórnendur. Ég held að menn hljóti að verða að hafa í huga í framtíðinni að skipta með reglulegu millibili til þess að hleypa að nýjum stefnum og straumum.

Varðandi skipan þjóðleikhúsráðs komum við enn einu sinni að því að taka á út pólitískt skipaða fulltrúa án þess að fram hafi farið umræða um það, meðal stjórnmálaflokka og annarra sem koma að málum, hvaða skipan er æskileg í þessum efnum. Nú má segja sem svo að frá upphafi hefði það verið óeðlilegt að skipa pólitíska fulltrúa í listastofnun af þessu tagi. Sú skipan á rætur að rekja til þess tíma er mikil pólitísk átök áttu sér stað og menn börðust um nánast hvert einasta sæti sem til ráðstöfunar var. Ég ítreka efasemdir mínar um þetta.

Mér finnst að almennt þurfi að ræða hvort framkvæmdarvaldið eigi að skipa í allar stjórnir og ráð á vegum framkvæmdarvaldsins. Hvar eiga pólitískt kjörnir fulltrúar að koma að? Hvar eiga faglegir fulltrúar að koma að? Í því samhengi vil ég minna á að á sínum tíma þegar gerðar voru breytingar á skipan þjóðminjaráðs og undirhópa þar sem eingöngu faglegir aðilar komu að, þá þróuðust mál mjög til verri vegar. Fagaðilar hafa oft mjög sterkar skoðanir á því hvernig málum skuli háttað og lenda í miklum fræðilegum deilum. Það er því oft mjög gott að utanaðkomandi aðilar komi að málum. Eftir reynsluna í Þjóðminjasafninu hef ég haft miklar efasemdir um að alltaf sé hollt að einungis faglegir aðilar komi að og tel mjög nauðsynlegt að stjórnir stofnana séu opnar fyrir öðrum sjónarmiðum.

[11:30]

En það sem mig langaði aðallega til að ræða í sambandi við 7. gr. og beina spurningum til hæstv. menntmrh. er varðandi hlutverk þjóðleikhúsráðs. Eins og lagatextinn hljóðar finnst mér að hlutverk þjóðleikhúsráðs og verkaskiptingin milli þjóðleikhússtjóra og þjóðleikhúsráðs sé býsna óljós. Ætla menn fyrst og fremst að byggja þarna á reynslunni?

Í 6. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Þjóðleikhússtjóri er stjórnandi leikhússins og markar listræna stefnu þess í samráði við þjóðleikhúsráð.``

Hver er ræður í raun og veru ef ágreiningur kemur upp? Hvers er valdið í Þjóðleikhúsinu? Eins og þetta hljómar í 6. og 7. gr. finnst mér að þjóðleikhúsráð sé meira eins og ráðgefandi í málefnum leikhússins. Í 7. gr. segir með, leyfi forseta:

,,Þjóðleikhúsráð er stjórnarnefnd Þjóðleikhússins og skulu allar meiri háttar ákvarðanir um leikhúsreksturinn bornar undir ráðið.``

Til samþykktar eða synjunar eða bara svona til þess að hafa borið málið upp? Mér finnst þetta mjög óljóst. Ýmsir fræðingar á sviði stjórnunar mundu segja að skipuritið væri óljóst í Þjóðleikhúsinu hvað þetta varðar.

Hér fá fulltrúar starfsmanna leikhússins fulltrúa í ráðið og það er að mínum dómi sjálfsagt og eðlilegt.

Þá vík ég að 16. gr. sem gerð var að umræðuefni fyrr á þessum fundi. Ég er ekki alveg sammála hv. síðasta ræðumanni hvað það varðar að ég held það hljóti að vera ákaflega erfitt að tíunda í svona rammalöggjöf hverjir eigi ótvírætt að njóta fjárstuðnings og hverjir ekki. Eiga menn þar að binda sig við atvinnustarfsemina, nefna Íslensku óperuna, Leikfélag Reykjavíkur og Leikfélag Akureyrar? Alþýðuleikhúsið er atvinnuleikhús sem hefur ekki starfað um nokkurra ára bil en var lengi með fastar fjárveitingar. Ég veit ekki hvort og kannast ekki við að það hafi verið lagt niður. Hvað um rótgróin og stórkostleg leikfélög eins og Leikfélag Húsavíkur sem hefur haldið uppi aldeilis frábærri starfsemi áratugum saman? Hverjir eiga að hafa forgang og hverjir ekki?

Hvað um ný leikhús? Í Reykjavík hefur t.d. leikhúsið Loftkastalinn starfað um nokkurra ára bil og fleiri leikhús. Er eðlilegt að tíunda í rammalöggjöf hverjir eigi ótvírætt að njóta fjárstuðnings?

Ég skil þau sjónarmið viðkomandi aðila að þeim finnist þetta ekki skapa mikið öryggi eins og þetta er hér fram sett. En ég set stórt spurningarmerki við þetta þó að ég skilji sjónarmið hv. þm.

Þá vil ég aðeins víkja að 17. gr. varðandi leiklistarráðið. Þar er verið að fækka fulltrúum og ég spyr hæstv. menntmrh. um rökin fyrir þessari fækkun í leiklistarráði. Hlutverk þessa ráðs er reyndar að gera tillögu um úthlutun fjár og síðan að vera til umsagnar um ýmis leiklistarerindi sem berast menntmrn. Væntanlega á umræða um leiklistarmál að fara fram á vettvangi þessa ráðs. En í rauninni finnst mér hlutverk þess ekki mjög skýrt í frv. eða til hvers það á eiginlega að vera. Er nauðsynlegt að skipa þetta ráð til þess að úthluta þessum peningum? Er þetta eitthvert samkomulag við fulltrúa listamanna eða hvað er á ferðinni?

Fleira ætlaði ég ekki að nefna í sambandi við þetta frv. Eins og ég nefndi í upphafi fylgdist ég ekki grannt með umræðunni í fyrra enda hafði ég nóg að sýsla í öðrum stórmálum á þinginu. En nú á ég sæti í menntmn. og fæ þar með kost á því að heyra sjónarmið þeirra sem málið varðar sérstaklega, leikhúsanna og leikfélaganna úti um allt land og það verður fróðlegt að heyra hvaða sjónarmið eru þar uppi. Ég sé að hér hefur að nokkru leyti verið komið til móts við sjónarmið eða þá gagnrýni sem þeir aðilar komu fram með. En síðan eru ákveðin álitamál eins og um ráðningartíma þjóðleikhússtjórans, um skipan þjóðleikhúsráðs, um leikhúsráðið og þetta atriði sem felst í 16. gr.

En eins og ég segi gefst mér færi á að fara nánar ofan í málið þannig að ég læt máli mínu lokið, hæstv. forseti.