Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 11:37:40 (596)

1998-10-22 11:37:40# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[11:37]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna orða hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um þær áherslur sem ég er að reyna að leggja í þessum málum þá finnst mér dálítill munur á því hvort við erum að tala um eina atvinnuleikhúsið sem er starfrækt utan höfuðborgarsvæðisins og svo aðra hugsanlega atvinnu- eða áhugaleikhópa. Ég geri skýran greinarmun þarna á og ég hefði gjarnan viljað sjá þetta eina atvinnuleikhús landsbyggðarinnar þróast yfir í það sem annars staðar á Norðurlöndunum eru kölluð landshlutaleikhús vegna þess að sú gróska í leikhúsmálum sem hv. þm. gat réttilega um að er víða um landið og ekki síst á Norðurlandi, er ekki hvað síst fyrir það að leikhús þar á þennan bakhjarl í atvinnuleikhúsi. Ef við höfum ekki traust atvinnuleikhús þá veikjum við í leiðinni grundvöll áhugaleikfélaganna. Þannig er veruleikinn og það er hann sem ég held að við verðum að horfa til í þessu efni og reyna að stuðla að því að við veikjum ekki þetta hlutverk Leikfélags Akureyrar heldur styrkjum.

Sömuleiðis skiptir verulegu máli fyrir Bandalag ísl. leikfélaga, sem er fulltrúi þess nets sem leikfélögin hafa myndað úti um allt land, að því sé veittur sá sess sem það verðskuldar. Þessi atriði eru í rauninni spurning um ákveðna menningarpólitíska stefnu sem ég óska eftir að komi betur fram í lögum um leiklistarlíf en verður ef þetta frv. verður að lögum.