Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 11:39:32 (597)

1998-10-22 11:39:32# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[11:39]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. að atvinnuleikhúsið eina sem starfar utan Reykjavíkur hefur haft gífurlega þýðingu fyrir leiklistarstarfsemi á Norðurlandi. En spurningin snýst um hvort eðlilegt sé í rammalöggjöf að tíunda einstaka aðila. Við fjöllum hér sérstaklega um Þjóðleikhúsið vegna þess að það er ríkisstofnun. Aðrir aðilar eru reknir með stuðningi sveitarfélaganna, með ákveðnum stuðningi ríkisins og með sjálfsaflafé. Spurningin er sem sagt: Ef við förum að tíunda einn eða tvo aðila, hvað þá um hina þó að þeir starfi á höfuðborgarsvæðinu eða eins og Alþýðuleikhúsið gerði á sínum tíma? Það starfaði og fór vítt og breitt um landið.

Mér finnst þetta fyrst og fremst vera lagalega tæknilegt spursmál en ég skil þann vilja þingmannanna að reyna að tryggja stöðu þessa ágæta og merkilega leikhúss norður í landi.

Ég bendi hv. þm. á að í 14. gr. er Bandalags ísl. leikfélaga getið. Það á leita tillagna þess til úthlutunar styrkja til áhugaleikfélaganna. Leiklistarráðið annast atvinnuleikhópana. Í í lögunum er því verið að tryggja stöðu bandalagsins. En enn stendur eftir spurningin um 16. gr.: Hvað á að tíunda þar?