Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:29:25 (608)

1998-10-22 12:29:25# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:29]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi sérstaklega 15. gr. og velti því fyrir sér hvernig stæði á því að sú skuldbinding sem þar hvíldi á sveitarstjórnunum væri numin brott. Það er náttúrlega eðlilegt að hv. þm. sé óróleg yfir þessu. Með þessu er dregið nokkuð úr miðstjórn og það er mjög eðlilegt að þingmaður með jafnsterka miðstjórnaráráttu og hv. þm. finni að því.

Að sjálfsögðu er verið að fylgja því eftir sem hér hefur verið í gangi og allir verið sammála um, að auka ábyrgð og sjálfstæði sveitarfélaganna. Hvers vegna er það gert, hv. þm.? Vegna þess að þeir sem ganga fram í því trúa að sveitarfélögin hafi metnað til að sinna þeim störfum þó hv. þm. trúi því kannski ekki. Auðvitað er gert ráð fyrir því að frumkvæði heimamanna muni leiða þessi mál í góðan farveg. Hverju er hægt að treysta ef ekki má treysta frumkvæði heimamanna?