Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:32:16 (610)

1998-10-22 12:32:16# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:32]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir hefur réttilega bent á að þarna er um tvær leiðir að ræða í menningarmálum, mismunandi stefnu. Annars vegar er þessi miðstýringarárátta sem hv. þm. hefur viðurkennt að hún sé fulltrúi fyrir og hins vegar er menningarpólitík sem byggist á frumkvæði heimamanna. Með öðrum orðum snýst málið um það hvort við ætlum að byggja upp menningarpólitík sem byggist á frumkvæði heimamanna eða á fyrirsögn að sunnan. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, hv. þm., að ég kýs frekar að byggja menningarstefnu á frumkvæði heimamanna.

Ég vil bara geta þess að það er einmitt þetta frumkvæði heimamanna sem nú á síðari árum hefur fengið ýmsa viðurkenningu. Fyrir utan leikfélögin sem gjarnan mætti minnast á í þessu sambandi þá nefni ég t.d. að frumkvæði heimamanna í náttúruvísindum hefur nú verið viðurkennt. Ríkisstjórnin hefur viðurkennt það á mjög rausnarlegan hátt. Það er einnig hægt að nefna að frumkvæði heimamanna á sviði íþróttamála hefur líka verið viðurkennt af ríkinu með ríflegum styrkjum þannig að þarna er verið að svara þessu frumkvæði með sérstakri stefnu í menningarmálum.