Leiklistarlög

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 12:52:48 (614)

1998-10-22 12:52:48# 123. lþ. 15.17 fundur 146. mál: #A leiklistarlög# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[12:52]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. kvartar undan því að ekki sé jafnræði með Loftkastalanum og Þjóðleikhúsinu og það komi fram í því að styrkir á hvern miða séu mismunandi. Þetta er ósköp eðlilegt. Við gerum heldur ekki sömu kröfur til Loftkastalans og Þjóðleikhússins. Við gerum mismunandi kröfur til hinna ýmsu leikhópa og það er fullkomlega eðlilegt að það sé gert.

Við gerum mismunandi kröfur til hinna ýmsu stofnana samfélagsins. Væntanlega er þá stuðningur Alþingis, ef um hann er að ræða, í einhverju samhengi við þær kröfur sem gerðar eru. Þau leiklistarlög sem við erum að fjalla um taka sérstaklega til Þjóðleikhússins og þeirra skyldna sem Þjóðleikhúsið hefur. Af því að Þjóðleikhúsið hefur ákveðnar skyldur þá er eðlilegt að ekki sé jafnræði á milli Þjóðleikhússins og leikhúss sem fyrst og fremst tekur að sér að hýsa ýmsa leikhópa eins og Loftkastalinn gerir. Loftkastalinn tekur að sér að hýsa ýmsa leikhópa sem eru með ýmsa styrki frá hinu opinbera.

Fyrir utan það að Loftkastalinn hefur fengið styrki þá eru margir leikhópar líka með ýmsa styrki. Þeir leikhópar sem standa undir nafni og troða upp á veitingastöðum borgarinnar eru líka með styrki. Vegna þess að allt þetta fólk vill fá laun fyrir vinnuna sína og hluti af þeim launum er alla jafna í formi styrkja.