Aðlögunarsamningur við fangaverði

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 13:37:23 (622)

1998-10-22 13:37:23# 123. lþ. 15.92 fundur 73#B aðlögunarsamningur við fangaverði# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[13:37]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið í apríl 1997 að gerður var kjarasamningur milli fjmrh. og Starfsmannafélags ríkisstofnana. Í þeim samningi var kveðið á um gerð svokallaðra aðlögunarsamninga sem hv. 2. þm. Suðurl. minntist á. Þar var gert ráð fyrir því að störf opinberra starfsmanna yrðu skilgreind í fjóra flokka frá A til D samkvæmt nánari skilgreiningu í samningunum. Hlutverk einstakra ríkisstofnana hefur síðan verið að gera samninga við starfsmenn á sínu sviði, svokallaða aðlögunarsamninga, til að fella störf að þessum skilgreiningum. Hins vegar lá fyrir að svigrúm einstakra stofnana væri mjög takmarkað og byði aðeins upp á breytingar í samræmi við tilfærslu eða upp á 2%.

Fjárlög fyrir þetta ár marka einstökum stofnunum og þar á meðal Fangelsismálastofnun ákveðinn fjárlagaramma. Forstöðumaður stofnunarinnar hefur ekki umboð til samninga umfram það sem fjárlög kveða á um. Segja má að þetta sé sá grundvallarvandi sem fyrir liggur. Það er rétt sem hér hefur komið fram að fangaverðir hafa lagt áherslu á að störf þeirra yrðu flokkuð í svokallaðan B-ramma. Fangelsismálastofnun metur það svo að það hefði í för með sér launahækkun sem nemur 25--30%. Eins og kunnugt er og hv. málshefjandi vék hér að hafa fangaverðir gjarnan miðað laun sín við laun lögreglumanna og telja að breytingu af þessu tagi þurfi til að fylgt sé hefðbundnum viðmiðunum. Ég ætla ekki að leggja dóm á það á þessu stigi en legg á það áherslu að hér er ekki um að ræða hefðbundinn kjarasamning heldur aðlögunarsamning sem settar voru mjög þröngar skorður þar sem forstöðumaður hefur ekki aðrar heimildir en þær sem fjárlög kveða á um.

Nokkrar viðræður hafa farið fram frá því að þær hófust en ekki leitt til niðurstöðu. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að vísa málinu til úrskurðarnefndar. Hvorugur aðilinn hefur gert það enn sem komið er. Ég hef það á tilfinningunni að ef menn sæju þess kost að mætast á miðri leið, þá væri unnt að ljúka þessari deilu tiltölulega fljótt. Ég get ekki lagt mat á það hvort grundvöllur er fyrir því að svo komnu máli. Við hljótum hins vegar að vona að samningsaðilar leiði málið til lykta og finni á því viðunandi lausn. Ég tek undir það með hv. þm. að hér er um mikilvæg störf að ræða sem kalla á ábyrgð og hæfni þeirra sem þeim gegna.

Varðandi fyrirspurn hv. þm. um bótakröfur eða skaðabótarétt fangavarða hef ég ekki upplýsingar um það mál en að gefnu þessu tilefni mun ég kynna mér það og koma upplýsingum um það til hv. þm.