Aðlögunarsamningur við fangaverði

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 13:51:11 (627)

1998-10-22 13:51:11# 123. lþ. 15.92 fundur 73#B aðlögunarsamningur við fangaverði# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[13:51]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. dómsmrh. fyrir málefnaleg svör. Hann segir að það standi á fjárlögum í þessu efni, stakkurinn sé það þröngt skorinn. Þá sjáum við að málið hlýtur að vera auðleyst á næstu dögum. Þegar búið er að semja við yfir 90% fólks í fyrirtækjum ríkisins þá getur það ekki gerst í þessu efni að ein stétt, fangaverðir, sæti slíkum afarkostum. Þeir hljóta að fá það upp borið í fjárlögum að laun þeirra verði hækkuð sem nemur menntun þeirra og reynslu og að þeir verði ekki settir á bekk með 17 ára ungling sem er að hefja sinn starfsferil. Ég trúi því að þetta mál sé auðleysanlegt. Ég ætla ekkert að ásaka hæstv. dómsmrh. Ég trúi því að hann muni leysa þetta. Fangelsismálastjóri mun sannarlega vilja að lögum fara og þola þann ramma og pína aðra undir honum. Þeim pyndingum verður auðvitað að linna í þessu efni.

Ég vil enn fremur þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að minnast á þetta með skaðabótalöggjöfina, sem kom mér á óvart. Ég er með í höndunum bréf frá lögfræðingi. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fangavörður sem verður fyrir líkamstjóni af völdum árásar fanga þarf að sækja bætur úr hendi fangans. Litið er svo á að ábyrgð ríkisins sé til vara og byggist sú túlkun á dómum Hæstaréttar í málum sem varða bótarétt lögreglumanna.``

Hér kom líka á fund minn undir umræðunni hv. formaður allshn., Sólveig Pétursdóttir, og sagði mér að þessi endurskoðun heildarlöggjafarinnar væri fram undan á þessu þingi. Þetta kom hv. þm. einnig á óvart þannig að ég trúi því að þetta þing muni einnig leysa það mál.

Hæstv. forseti. Ég læt þá máli mínu lokið.