Aðlögunarsamningur við fangaverði

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 13:53:35 (628)

1998-10-22 13:53:35# 123. lþ. 15.92 fundur 73#B aðlögunarsamningur við fangaverði# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[13:53]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er mikilvægt í þessari umræðu að menn geri glöggan greinarmun á almennum kjarasamningum og hins vegar þeim aðlögunarsamningum sem forstöðumenn einstakra stofnana og stéttarfélögin fengu umboð til að gera. Í því liggur sá vandi sem menn standa hér frammi fyrir að menn eru að tala um leiðréttingu á launum sem fellur utan við þann fjárlagaramma sem sú stofnun hefur sem hér á í hlut. Ég þykist vita að alþingismenn gera þær kröfur til þessa forstöðumanns eins og annarra að þeir í störfum sínum freisti þess að halda sig innan við ramma fjárlaganna. Auðvitað verður lagt á það kapp að finna lausn á þessu máli eins og öðrum. En hér er um samninga að ræða og þess vegna getur annar aðilinn ekki gefið út einhliða yfirlýsingu um það á hvern veg sú lausn verður fengin. Ég vona að sá tími sem menn hafa nýtist mönnum til að komast að skynsamlegri niðurstöðu fyrir alla aðila í málinu.

Ég þakka svo fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram.