Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:00:13 (629)

1998-10-22 14:00:13# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:00]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hef beðið um þessa utandagskrárumræðu vegna þess að stöðugt berast fréttir utan af landsbyggðinni um fækkun íbúa. Nú er svo komið að ekki er lengur hægt að tala um fækkun íbúa heldur ætti að tala um fólksflótta.

Mér sem nýliða hér blöskrar andvaraleysið gagnvart þessum málum. Þetta eru sennilega stærstu mál sem við stöndum frammi fyrir í dag. Hér er dag eftir dag og viku eftir viku rætt um hluti sem að mínu mati mættu bíða miðað við stöðuna í þessum málum.

Ég hef líka farið fram á þessa umræðu vegna þess að nú liggur fyrir tillaga um kjördæmabreytingu. Þegar ég sá hana fannst mér fyrst kasta tólfunum. Ætlum við eina ferðina enn að fara út í breytingar, undir því yfirskini að þær séu til hagsbóta fyrir landsbyggðina, sem byggja einvörðungu á vægi flokkanna innbyrðis gagnvart kjósendum úti á landi? Ekkert í þessum tillögum tekur á þeim grunnvanda sem við erum að kljást við.

Grunnvandi landsbyggðarinnar er ekki að senda þurfi peninga út á land, hann er stjórnsýslulegs eðlis. Við búum við miðstýrt efnhagslegt og pólitískt kerfi sem hefur haft þær afleiðingar að við úti á landsbyggðinni getum ekki lengur notið ábata vinnu okkar.

Alveg frá 1980 hef ég starfað í samtökum sem farið hafa í grunnvinnu til að skilgreina á hverju þurfi að halda til þess að landsbyggðin geti blómstrað á eðlilegum forsendum. Það eru kerfisbreytingar, frá miðstýringu til valddreifingar og beinni tengsl milli tekjuöflunar og ráðstöfunar á sameiginlegum tekjum landsmanna.

Því miður er það svo í samfélagi okkar að við erum líklega með hæstu prósentu þess sem við eyðum í samfélagslega þjónustu, um 70% síðast þegar ég vissi. Ég hef lagt fram eftirfarandi spurningar til forsrh.:

1. Hver hefur íbúaþróun varðandi íbúafjölda á landsbyggðinni verið síðustu sjö ár?

2. Hver er þróun íbúafjölda á þessu tímabili miðað við þær áætlanir sem menn höfðu?

3. Hyggst ríkisstjórnin grípa til sérstakra aðgerða til þess að stemma stigu við fólksflótta af landsbyggðinni?

4. Hver er áætlaður grunnkostnaður samfélagsins vegna flutnings inn á höfuðborgarsvæðið sl. tvö ár?

Að skipta um búsetu á 2.000--2.500, ég tala nú ekki um 3.000 manns, það kostar tugi milljarða. Ætli það sé ekki á þriðja tug milljarða, aðeins í götur, holræsi, lagnir og því um líkt, svo ekki sé talað um tap þeirra sem lenda í þeim hremmingum að þurfa að flytjast búferlum.

Þessu þarf að svara, þetta er landsmál. Þetta er ekki landsbyggðarmál. Við verðum að leggjast í þá vinnu í þinginu að setja niður fyrir okkur hvernig við ætlum að lifa í þessu landi. Þetta er leikregluspursmál.

Ég spyr forsrh. líka: Er ekki þörf á nýrri stefnu varðandi stöðu landsbyggðarinnar?

Hæstv. forsrh. Ég minntist á vinnu sem ég hef verið viðriðinn mörg undanfarin ár. Ég var félagi í Samtökum um jafnrétti milli landshluta alveg frá árinu 1980. Þau komu fram með greinargóð plögg til þess að leggja grunn að því sem við teljum að þörf sé á að framkvæma.

Árið 1987 tók Ólafur Þ. Þórðarson, hv. þm. Vestf., nú látinn, frv. til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sem Samtök um jafnrétti milli landshluta höfðu unnið, og lagði hér fyrir þingið. Það var tilraun til að setja fram nýja stefnu frá grunni. Þetta frv. fékk sáralitlar eða engar undirtektir að því er ég best veit og dagaði uppi eins og svo margt. Í framhaldi af því flutti hv. þm. Hjörleifur Guttormsson till. til þál. um nýja byggðastefnu og valddreifingu til héraða og sveitarfélaga, sama ár og Ólafur lagði fram frv. Samtaka um jafnrétti milli landshluta, um stjórnskipunarlög.

Þessa grunnþætti þarf að fara í og ég hvet hv. þingmenn til þess að kynna sér þessi plögg og hefja alvöru umræðu um hvernig við ætlum að búa í þessu landi. Það er mál málanna í þessu samfélagi.