Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:05:37 (630)

1998-10-22 14:05:37# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að hefja máls á þessu viðfangsefni. Hann sendi mér þær spurningar sem hann vitnaði til, mér bárust þær í morgun. Ég verð strax í upphafi að geta þess að svörin verða fyrir þær sakir kannski ekki jafngóð og hann hefði kosið, þ.e. vegna þess stutta tíma sem til ráðstöfunar var, a.m.k. fyrir þá spurninguna sem er viðamest.

Hv. þm. spyr hver hafi verið þróun varðandi íbúafjölda á landsbyggðinni sl. sjö ár. Frá 1990--1997 hefur íbúum á landsbyggðinni fækkað úr 109.700 manns í 107.700 eða um 2,1%.

Í annarri spurningu er spurt: Hvernig er þróun íbúafjölda á landsbyggðinni miðað við áætlanir? Út af fyrir sig hafa ekki verið gerðar neinar spár og hvað þá áætlanir um íbúaþróun einstakra landsvæða. Í stefnumótun um byggðaáætlun fyrir árin 1994--1997, en hún var ályktun Alþingis frá 1994, var eitt af markmiðunum að draga úr, eins og þar var orðað, fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins. Það hefur ekki tekist til fulls eins og sést af þeim tölum sem við sjáum á þessu augnabliki.

Þegar þau sjónarmið voru sett fram og voru í vinnslu töldum við flest, hvar sem við bjuggum í landinu, að atvinnuástandið sem þá var erfitt og atvinnuleysi sem var mikið, til að mynda í kjördæmi hv. þm., hefði mest að segja um byggðaþróun. Nú hefur þetta gengið í þá átt að atvinnuleysi í landinu er aðeins 2%. Þá gerist það að frá sumum kjördæmum liggur engu síður mikill straumur fólks til þéttbýlisins. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni.

Hv. þm. spyr hvort ríkisstjórnin hyggist grípa til sérstakra aðgerða til að stemma stigu við fólksflótta af landsbyggðinni. Ég hygg að þrátt fyrir það sem þingmaðurinn sagði um umræður í þessum sal hafi allir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa og hvar sem þeir búa, áhyggjur af þessari þróun. Þó held ég að kannski sé fullmikið sagt að tala hér um hreinan fólksflótta. Ég held að við eigum heldur ekki að ýkja ástandið.

Eins og fram kom í stefnuræðu sem flutt var hér fyrir ekki löngu síðan á þinginu þá stendur til að endurflytja þáltill. um stefnu í byggðamálum og afgreiða þá stefnuáætlun. Ég tel að sú áætlun sé afar vel unnin af hálfu stjórnar Byggðastofnunar og geti gefið okkur góða viðspyrnu ef við fylgjum henni eftir af manndómi, sem ég vona að sé stuðningur við í þinginu. Við skulum þó ekki ætla að sú áætlun, jafnvel þó henni verði fylgt fast eftir, leysi allan vanda. En hún getur gefið okkur góða viðspyrnu og vonandi, ef vel tekst til, snúið vörn í sókn.

Jafnframt hefur ríkisstjórnin auðvitað reynt að stuðla að sambærilegum og svipuðum markmiðum með stefnu sinni í öðrum málum, t.d. varðandi stóriðjustefnu, sem á nú kannski undir högg að sækja í augnablikinu eins og menn vita. Þar er deilt um markmið, leiðir og fórnarkostnað. Einnig hefur ríkisstjórnin með eflingu menntastofnana á landsbyggðinni stuðlað að því að draga úr þeirri þróun sem við höfum verið að horfa upp á og fleira mætti nefna í þeim efnum.

Þá spyr hv. þm.: Hver er áætlaður grunnkostnaður samfélagsins vegna flutnings inn á höfuðborgarsvæðið sl. tvö ár? Þetta er kannski erfiðasta spurningin og þarf lengstan aðdraganda til að svara. Við eigum í rauninni ekki einfalt svar við þessari spurningu. En vegna þess að félagsleg þjónusta og ýmis þess háttar grunngerð hefur verið byggð upp um allt land þá er ljóst að við aðflutning á höfuðborgarsvæðið þarf að byggja þar upp þjónustu og grunngerð að nýju, eins og hv. þm. nefndi áðan í ræðu sinni.

Aðflutningur af landsbyggðinni myndar u.þ.b. helming af fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Þó er ekki hægt að reikna með, samkvæmt viturra manna ráði, að helmingur af kostnaði við uppbyggingu opinberrar þjónustu og grunngerðar sé viðbótarkostnaður vegna flutninganna. Hluti aukningarinnar er frá stöðum þar sem ekki á sér stað fækkun. Þar er því ekki um tvöfaldan kostnað að ræða.

Hins vegar er ósvarað spurningunni um það hver grunnkostnaður samfélagsins er og hvaða kostnaðarþætti eigi þá að telja með. Mjög gróf athugun, með fullum fyrirvörum á fjárfestingu Reykjavíkurborgar á undanförnum árum, bendir til að slík fjárfesting sé u.þ.b. 3--5 millj. kr. á hvern nýjan íbúa. Þá eru fjárfestingar veitustofnana ekki meðtaldar. Ekki er mögulegt að gefa ítarlegra svar þessari spurningu nema að undangenginni mikilli rannsókn og athugun.

Varðandi fimmtu spurninguna þá vísa ég til þess sem ég sagði um þriðju spurninguna.