Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:16:13 (633)

1998-10-22 14:16:13# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), EgJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:16]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna þessari umræðu. Það er kannski vert að benda aðeins á það, til þess að undirstrika þann vanda sem hér er á ferð, að flutningur af landsbyggðinni það sem af er þessu ári er jafnmikill og sem nemur íbúum Egilsstaða. Og það sem Egilsstaðamenn hafa verið að gera á 50 ára ferli er nokkuð líkt því sem þarf að aðhafast hér til þess að byggja yfir þá íbúa sem færa sig af landsbyggðinni hingað suður eftir.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að í þeirri till. til þál. sem hæstv. forsrh. hefur lýst yfir að flutt yrði á Alþingi, er út frá því gengið að stöðva þennan fólksflótta. Markmið þeirrar tillögu er að landsbyggðin haldi sinni hlutdeild í íbúafjölguninni á næstu árum. Þetta er auðvitað grundvallaratriði og tillagan er unnin og fram sett með tilliti til þessara grundvallarmarkmiða.

Ástæðurnar fyrir þessum breytingum í búsetu á Íslandi var ákveðið að rannsaka og tillagan byggir einmitt á þeim niðurstöðum. Það sem þarf því að gerast er að fá þessa tillögu fram, eins og reyndar hæstv. forsrh. hefur lýst skilmerkilega, og að fylgja henni eftir með trúverðugum hætti. Það þarf að gera og þá breytast þessar aðstæður í þjóðfélaginu.