Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:20:47 (635)

1998-10-22 14:20:47# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:20]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Áratugum saman hefur verið reynt að sporna gegn flutningi fólks úr dreifbýli í þéttbýli, af landsbyggð á höfuðborgarsvæðið. Menn hafa verið nokkuð sammála um að fólk eigi rétt á þjónustu hvar sem það býr á landinu. Byggðir hafa verið vegir, skólar, heilbrigðisstofnanir og starfsfólki í opinberri þjónustu greitt sérstaklega fyrir að starfa og búa víða úti á landi, sem reyndar dugir ekki alltaf til þótt sums staðar séu há laun og fríðindi í boði. Atvinnulíf hefur verið styrkt og á ýmsan hátt reynt að skapa skilyrði til eflingar atvinnu og búsetu utan höfuðborgarsvæðisins og til þessa hafa farið gríðarlegir fjármunir.

En í öllu þessu hafa menn nánast algjörlega horft fram hjá þeirri staðreynd að aðstæður eru gjörbreyttar. Fjölskylduhagir eru gjörbreyttir. Sá tími er liðinn að mestu skipti að hafa næga atvinnu fyrir karla, t.d. stóriðju eins og stjórnvöld virðast trúa á. Konur og börn fylgi einfaldlega með í farangrinum hvert á land sem er.

Staðreyndin er hins vegar sú að langflestar konur eru á vinnumarkaði og atvinnulífið getur ekki án þeirra verið þótt menn eigi nú í basli með að viðurkenna það. Konur eru nú óvart sjálfstæðir einstaklingar sem láta ekki skikka sig fram og til baka og þess vegna er það lykilatriði að á hinum ýmsu stöðum þar sem búseta þrífst í landinu séu úrræði og kostir við hæfi beggja kynja.

Herra forseti. Fjölbreytni er krafa nútímans, í atvinnulífi, í allri þjónustu og í menningarlífi og stóra spurningin er hve langt menn treysta sér til að ganga á öllum þessum sviðum. Það er auðvitað sameiginlegt verkefni landsmanna allra.