Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:27:01 (638)

1998-10-22 14:27:01# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:27]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum er eitthvert alvarlegasta vandamálið sem við er að glíma í okkar þjóðfélagi um þessar mundir. Það er ljóst að sú búsetuþróun sem orðið hefur á undanförnum árum, allt of mörgum árum, hefur leitt yfir þjóðfélagið margs konar kostnað, ekki síst fyrir sveitarfélögin í þéttbýlinu.

Það kom fram í máli hæstv. forsrh. að kostnaðurinn við það að búa nýjum einstaklingi búsetu í sveitarfélögum gæti legið á bilinu 3--5 millj. kr. Og ef við gefum okkur að búseturöskunin nemi um 2.000 manns á ári þá sýnist mér að talan sem við erum hér að ræða geti legið eitthvað á bilinu 6--10 milljarðar á ári.

Jafnvel þó við gæfum okkur, eins og hæstv. forsrh. benti á, að þetta sé ekki alveg svona, að þessi tala sé eitthvað lægri, þá blasir það samt sem áður við að kostnaður þjóðfélagsins, fólks sem er að yfirgefa heimahaga sína og skilur eftir fjárfestingar úti á landsbyggðinni sem eru lítt metnar auk þess kostnaðar sem jafnframt leggst á sveitarfélögin sem eftir standa með færri gjaldendur til að standa undir þessari fjárfestingu, er alveg stjarnfræðilegur. Það er enginn vafi á því að þessi búsetuþróun hefur auðvitað þau áhrif til lengri tíma litið að lífskjörin verða lakari. Þetta hefur með öðrum orðum þær afleiðingar í för með sér að lífskjörin versna í þjóðfélaginu ef okkur tekst ekki að snúa þessari byggðaþróun við.

Okkur er auðvitað ljóst að þessi mál eru miklu flóknari núna en þau voru áður. Við höfum engu að síður að undanförnu verið að reyna að átta okkur betur á ástæðu búseturöskunarinnar og ég tel að við séum í betri færum nú en nokkru sinni áður vegna þeirrar undirbúningsvinnu sem stjórn Byggðastofnunar beitti sér fyrir og kemur fram í till. til þál. sem hæstv. forsrh. lagði fram á liðnu þingi og verður vonandi lögð fram innan tíðar og afgreidd sem fyrst héðan frá Alþingi. Það liggur fyrir að við höfum betri möguleika núna til að bregðast við vegna þess að við þekkjum forsendurnar betur. Og ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að nú ríður mjög á að afgreiða þessa þáltill.