Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:29:17 (639)

1998-10-22 14:29:17# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:29]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil undirstrika það sem hefur komið fram í þessari umræðu að byggðaþróunin er landsmál. Hún er þjóðfélagsvandamál. Hún er efnahagsvandamál. Það urðum við fjárlaganefndarmenn mjög varir við þegar við fórum í heimsókn í nágrannabyggðir Reykjavíkur. Þar kemur í ljós að mjög hefur fjölgað í þeim byggðum og fólkið sem kemur utan af landi mætir biðröðum þegar það kemur. Það mætir biðröðum til þess að fá opinbera þjónustu og það mætir biðröðum til að komast í vinnuna og ef svo heldur áfram sem horfir þá þarf að leggja mikið fjármagn í það á næstu árum að ráða við þessar biðraðir.

[14:30]

Ég tek því undir það sem fram hefur komið. Þetta er mál þjóðarinnar allrar og það á ekki að sundra þjóðinni í því efni að leita úrbóta.

Ég er sannfærður um að ein aðalástæðan fyrir því hvernig komið er er sú að fjölbreytni skortir í vinnu á landsbyggðinni. Ungt fólk krefst meiri fjölbreytni í atvinnutækifærum en áður var og það er ein ástæðan fyrir því hvernig komið er. Þess vegna finnst mér dálítið sérkennilegt að verða var við þá miklu andstöðu sem er t.d. við að byggja upp virkjanir og nýta orku, t.d. á Austurlandi, og skjóta þar fleiri stoðum undir atvinnulífið. Það segja margir í mín eyru að það geri bara ekkert til þó að byggðaröskunin verði. Það sé eðlilegt og engu fórnandi til þess að koma í veg fyrir hana. Það kemur maður eftir mann og segir þetta.

Ég er ekkert tiltakanlega bjartsýnn þegar nýjar hreyfingar í stjórnmálum koma upp með að leggja veiðileyfagjald á sjávarútveginn og skjóta orkunýtingu út af borðinu.