Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:31:38 (640)

1998-10-22 14:31:38# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:31]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka frummælanda fyrir að vekja máls á þessu efni. Til þess að bregðast við þeim vanda sem við horfum fram á er auðvitað mikil hjálp í þeim rannsóknum sem Byggðastofnun hefur staðið fyrir og þar koma fram ákveðin atriði sem þarf að bæta úr að áliti þess fólks sem býr á landsbyggðinni og þess fólks sem hefur flutt hingað á suðvesturhornið. Það eru atriði eins og orkuverð, samgöngumál, menntamál, menningarmál auk fjölbreytni í atvinnulífinu.

Margir af þessum þáttum eru atriði sem stjórnvöld og ríkisvaldið getur tekið á. Það er hægt að bregðast við háu orkuverði, stjórnvöld geta gert eitthvað í þeim málum, það er hægt að gera átak á því sviði. Orkuverð á landsbyggðinni er allt of hátt, húshitunarkostnaður er of hár.

Eitt af því sem menn hafa miklar áhyggjur af eru samgöngumál og liggur í augum uppi að er verkefni stjórnvalda. Menntamál er mikilsvert atriði þegar horft er til búsetu og ég vil nefna að Háskólinn á Akureyri er trúlega besta einstaka aðgerð sem gerð hefur verið í byggðamálum. Rannsóknir sýna að það fólk, sem menntast þar, sest að úti á landi að mjög miklum hluta. Það verður auðvitað að leggja áherslu á uppbyggingu, á endur- og símenntun ásamt háskólamenntun og nýta til þess þá nýju tækni sem við höfum yfir að ráða nú til dags.

Við vitum að allir þeir fjármunir sem fara til menningarmála fara á suðvesturhornið. Þeir fara ekki út á land og það er bara þannig. Þetta eru hlutir sem hægt er að breyta.

En málið er alvarlegt og við verðum að taka á því.