Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:42:11 (645)

1998-10-22 14:42:11# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:42]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Miðstýringin er vandamál landsbyggðarinnar og landsins alls. Ég vil nefna sem dæmi að þeir í Rússlandi lentu í þvílíkum vandræðum með að það var orðinn sex ára biðlisti að komast inn í Moskvu þrátt fyrir uppbyggingu á öllum mögulegum iðnaði um allt svæðið, í öllum lýðveldum, t.d. í stóriðju, stíflun fallvatna o.s.frv. Fólkið ruddist inn að kjötkötlum hins miðstýrða kerfis efnahagslega og pólitískt. Það er þessi grunnvandi sem þarf að ráðast á.

En ég er ekkert voðalega bjartsýnn þannig lagað séð. Hér yfir vötnunum vofir miðstýringarglýja. Menn eru ofboðslega mikið í þeim farvegi að halda að þeir þurfi að hugsa og gera fyrir þá úti á landi. Ég er að lýsa eftir grunnvinnu, grunnreglum til að leiðrétta þennan klafa miðstýringar sem við vinnum eftir. Það er það sem ég er að biðja um.

Nú eru sveitarfélögin að búa til fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár sem verða samþykktar innan mánaðar. Góðærið gefur ekki nokkurt útslag hjá sveitarstjórnunum vegna þess að þeir fá skammtinn sinn héðan. Það eru því engin bein tengsl milli tekjuöflunar og ráðstöfunar tekna. Enginn hvati, engin birta þótt góðæri sé. Farið á línuna og heyrið í þeim mönnum sem eru að vinna núna. Það er grunnvinna, nýjar grunnreglur sem byggja á valddreifingu, minnkun á ríkisumsvifum og beinni tengsl milli tekjuöflunar heima fyrir og ráðstöfun teknanna þar, sem á skortir.