Íbúaþróun á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 14:44:14 (646)

1998-10-22 14:44:14# 123. lþ. 15.93 fundur 74#B íbúaþróun á landsbyggðinni# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 123. lþ.

[14:44]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þessar umræður gefa tilefni til að ætla að umræður um byggðamál geti verið góðar og farsælar á næstu vikum. En við þurfum einnig að hafa í huga það sem hér hefur verið nefnt að byggðamál eru ekkert afmarkað verkefni, það tengist nánast öllu því sem við erum að fást við frá degi til dags í þinginu þó að það hafi ekki þá forskrift að heita byggðamál.

Eins og hv. málshefjandi nefndi nú síðast, þ.e. að stjórnvöld hefðu ekki treyst hinum dreifðu byggðum og vildu einmitt gefa þeim forskrift á sem flestum sviðum, þá er það nú ekki alveg nákvæmt miðað við þá þróun sem verið hefur á undanförnum árum. Stjórnvöld hafa til að mynda verið að reyna að ýta undir að sveitarfélög sameinuðust og stækkuðu. Það mun skila sér til langframa sem sterkari stjórnsýslueining sem ræður við fleiri verkefni.

[14:45]

Í framhaldi af því hefur ríkisvaldið beitt sér fyrir því að verkefni á borð við skólana, sem eru auðvitað stór og mikil verkefni, flytjist til sveitarfélaganna, forræðið og ábyrgðin verði þar í auknum mæli. Miðstýring er þannig minnkuð. Auðvitað falla fleiri svið sem við erum að ræða hér og deila um undir hatt byggðastefnu eða byggðasjónarmiða eins og nefnt hefur verið af hv. 2. þm. Austurl. Þegar rætt er um veiðileyfagjald á þá sem starfa við sjávarútveg, þá er beinlínis verið að ráðast á byggðir landsins. Það gefur auga leið og það veit fólk í hjarta sínu.

Sama er auðvitað með stóriðjumálin. Ef koma á í veg fyrir að stóriðja geti gengið og haldið áfram í einhverjum mæli, þá er líka ráðist gegn sjónarmiðum í byggðamálum. Stundum eru menn dálítið gamaldags í þessum efnum, t.d. hv. talsmaður Kvennalistans í umræðunum talar um að störf í stóriðju séu karlastörf. Hvers vegna? Af hverju geta þau ekki jafnt verið kvennastörf eins og karlastörf? Við höfum nú síðast séð það í álverinu í Straumsvík hvernig kona vinnur sig upp í gegnum þau störf og er forstjóri þess fyrirtækis. Slík störf geta auðvitað með nýrri hugsun verið jafnt kvennastörf sem karlastörf. Það gefur auga leið að við eigum að ræða þessi mál með opnum huga og það munum við gera á næstu vikum.