Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 15:51:11 (652)

1998-10-22 15:51:11# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[15:51]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Aðeins vegna þessara orða hv. þm. Péturs Blöndals, að hann er ósáttur við orðið barn. Við höfum ákveðna málvitund og þegar við tölum um barn þá erum við oftast nær að hugsa um ungt barn. Þetta eru auðvitað skilgreiningar og lagaskilgreiningar og er ekki aðalatriði í matinu hvort 17 ára glímukappi, og faðir, er skilgreindur barn samkvæmt lögum eða ekki. Annað er miklu stærra og mikilvægara í þessu samhengi. Við höfum oft komið inn á það. Það er sannfæring mín að þessi breyting, að hækka sjálfræðisaldurinn, var enn stærra mál og enn mikilvægari en ég hafði þó talið fyrir fram. Það finnst mér að við höfum séð í þeirri umfjöllun sem átt hefur sér stað eftir að þetta var lögfest á Alþingi.

Ég vil minna þingmanninn á að við höfum t.d. fengið upplýsingar um ungt fólk sem verið hefur í meðferð vegna vímuefnaneyslu. Foreldrarnir hafa reynt að bjarga þessum ungu börnum kannski fimmtán, fimmtán og hálfs árs gömlum. Við erum væntanlega sammála um að fimmtán ára séu þau enn þá börn. Algengt er að fimmtán og hálfs árs gömul hafi þau komist í meðferð og varla hafi tekið því að skrifa þau inn á heimili eða taka af þeim forræðið til þess. Þau hafa getað gengið út daginn sem þau verða 16 ára. Við stóðum frammi fyrir því að eftir 16 ára aldur hafi verið litið á þetta unga fólk sem fullorðið fólk með leyfi til þess samkvæmt lögum að eyðileggja líf sitt.

Auðvitað kallar þessi breyting á nýja hugsun og ný endurhæfingarúrræði og ekki síst nýtt fjármagn til þess fólks sem við viljum aðstoða sem allra mest, ungt fólk upp að 18 ára aldri.