Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 17:12:09 (668)

1998-10-22 17:12:09# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[17:12]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. hæstv. heilbrrh. um lífsýnasöfn sem að hennar sögn byggir að verulegu leyti á drögum sem siðaráð landlæknis skilaði frá sér á síðasta ári til ráðuneytisins. Það er samt athyglisvert, þegar maður les grg. með frv., að í vinnuhópi þeim sem hæstv. ráðherra setti á laggirnar til þess að vinna frv., þá virðist enginn úr téðu siðaráði hafa setið. Satt að segja heyrist mér á ræðu hæstv. ráðherra, og raunar líka á flýtilestri á þessu frv. að betra hefði verið að hafa einhvern úr siðaráðinu í þeirri vinnu. Mér sýnist satt að segja að einstakir kaflar eða ákvæði í þessu frv. brjóti mjög harkalega gegn ýmsum reglum sem eru eiginlega viðteknar í vinnu af þessu tagi. Siðaráð var bersýnilega, eftir upplýsingum sem komu fram í ræðu ráðherrans, þeirrar skoðunar að haga ætti þeirri vinnu öðruvísi en ráð er fyrir gert í frv.

Vísast er það rétt hjá hæstv. heilbrrh. að tímabært sé að setja sérstök lög um lífsýnasöfn og lífsýni. Slík lög hafa ekki verið til og lengi vel hefur meðferð lífsýna vafist nokkuð fyrir stjórnsýslunni. Lögin hafa ekki tekið á mikilvægum þáttum sem varða t.d. öflun þeirra, eignarhald og vörslu í mörgum tilvikum.

Ég geri mér grein fyrir því að mikilvægi lífsýna og dýrmæti sem í þeim felst hefur aukist hraðfluga á síðustu árum. Það stafar ekki af vaxandi umfangi lífsýnabanka, þó að þeir kunni að hafa stækkað allverulega á síðustu árum. Það stafar ekki síður af því að í burðarliðnum er ný tækni sem gerir kleift að vinna miklu meira magn upplýsinga, mun hraðar en áður úr lífsýnum.

Hér á landi eru til frábær söfn lífsýna, sem frumkvöðlar á sviði læknisfræði tóku upp hjá sjálfum sér að safna fyrir áratugum. Þau ná marga áratugi aftur í tímann, eru vel skrásett og í þessum söfnum er að finna gögn um tugþúsundir einstaklinga. Þegar við bætist að ný tækni gerir síðan kleift að bæta við þær upplýsingar sem liggja fyrir í þessum söfnum öðrum upplýsingasöfnum eins og ættarskrám, þá er ljóst að úr því má afla miklu verðmætari upplýsinga frá sjónarhóli læknisfræðinnar en gert hefur verið hingað til.

Í ræðu hæstv. ráðherra kom fram að þessi söfn hafa á undanförnum árum verið aflvaki aukins samstarfs milli íslenskra og erlendra vísindastofnana. Í grg. með frv. kemur jafnframt fram að með tilvísan til þessara lífsýnasafna hafi tekist að fá erlenda rannsóknarsjóði til þess að leggja verulegt fjármagn til rannsókna.

[17:15]

Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra hafa verið áhöld um mikilvæga þætti og má orða það svo að varði réttarstöðu þeirra sem lagt hafa til lífsýni. Að því tilefni finnst mér rétt að rifja hér upp, herra forseti, að heilbr.- og trn. tók mikilvægt skref til að skýra réttarstöðu sýnagjafa þegar hún fjallaði um frv. til laga um réttindi sjúklinga fyrir réttum tveimur árum. Í meðförum nefndarinnar --- og það er mikilvægt að rifja það upp --- var tekið af skarið um að lífsýni eru hluti af sjúkraskrá. Ég leyfi mér, herra forseti, að vísa til 10. gr. laga um réttindi sjúklinga þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Um aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám, þar með töldum lífsýnum, vegna vísindarannsókna gilda ákvæði 15. gr.``

Og í 3. mgr. 15. gr. segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Tölvunefnd er heimilt samkvæmt lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga að veita aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrám, þar með töldum lífsýnum.``

Skoðun nefndarinnar á þessum tíma var, eins og kemur fram í þessum lögum --- þetta orðalag er vegna breytinga sem urðu í meðförum heilbr.- og trn. --- að lífsýni eru hluti af sjúkraskrá. Öðruvísi er ekki hægt að líta á þetta. Það er lykilatriði í málinu.

Við þetta frv. verðum við að hafa til hliðsjónar frv. um miðlægan gagnagrunn. Þar er lagt til að heimilt verði að safna upplýsingum úr sjúkraskrám í þann tiltekna gagnagrunn. Samkvæmt þessu má einnig, ef þetta frv. yrði að lögum, færa í þann miðlæga gagnagrunn upplýsingar sem vinna má úr þeim hluta sjúkraskráa sem samkvæmt skilgreiningu laga um réttindi sjúklinga heita lífsýni. Það er mjög mikilvægt að menn hafi þetta til hliðsjónar, sér í lagi þegar rakin eru ýmis ákvæði í frv. því sem til umræðu er.

Ég verð að segja að óvanalega margar spurningar vöknuðu um innihald frv. þegar ég las það. Áður en ég kem að þeim allra helstu langar mig aðeins að drepa á þátt úr ræðu hæstv. ráðherra. Hún sagði að áhöld hefðu verið um það í vinnu ráðuneytisins hvort setja ætti inn ákvæði um leyfi til að eyða lífsýnum. Vísindasiðanefnd lagði það til. Það er vel skiljanlegt vegna þess að það er jafnan hluti aðferðafræðinnar sem liggur að baki upplýstu, óþvinguðu samþykki, að menn hætti þátttöku í vísindarannsókn. Samkvæmt frv., eins og ég kem inn á síðar, virðist það ekki vera hægt.

Hæstv. ráðherra greindi frá því að á þessu hafi leikið vafi. Mér skildist að rökin, a.m.k. sumra, hefðu verið að ekki væri hægt að leyfa að eyða lífsýni.

Nú er það svo, herra forseti, í frv. sem hér liggur fyrir er í 2. gr. greint frá því að við tilteknar aðstæður sé lífsýnum eytt. Þetta varðar ekki meginefni ræðu minnar en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er í raun mögulegt, með hliðsjón af lögunum um réttindi sjúklinga sem fortakslaust segja að lífsýni séu hluti af sjúkraskrá og samkvæmt hennar eigin röksemdafærslu, að heimila eyðingu lífsýna við þær tilteknu aðstæður sem greint er frá í 2. gr.? Þetta er bara svona akademísk spurning sem vaknaði hjá mér.

Í 2. gr. er mælt fyrir um að lögin eigi ekki að ná til tímabundinnar vörslu sýna vegna afmarkaðra vísindarannsókna. Þar er tvímælalaust tekið fram að sýnum sem þannig er aflað skuli eytt. Með þessu virðist löggjafinn gefa þeim, sem af fúsum og frjálsum vilja taka þátt í að brjóta út akurlendi nýrrar þekkingar með því að láta af höndum lífsýni, afar góða tryggingu fyrir því að sýnin úr þeim verði ekki notuð til annarra rannsókna en þeirra sem eru gefnar upp þegar samþykkis er aflað. Þetta finnst mér vera mjög jákvætt.

Í sömu grein segir að lögin nái ekki til sýna sem aflað er vegna tímabundinna nota við þjónusturannsóknir og svo vitnað sé orðrétt í greinina, með leyfi forseta: ,,... enda sé slíkum sýnum eytt þegar þjónustu eða rannsókn lýkur.``

Gott og vel. Þarna er í raun lagagrein sem mælir mjög skýrt og ótvírætt fyrir um að þeir sem fara í þjónusturannsókn geti treyst því að lífsýnum úr þeim verði eytt að þjónustu lokinni. Þetta er mikilvæg yfirlýsing af hálfu löggjafans. Við fyrstu sýn tekur hún af tvímæli um að sá sem haldinn er sjúkleika eða telur sig haldinn sjúkleika og leitar á náðir heilbrigðiskerfisins geti treyst því að lífsýni, sem úr honum yrði tekið til að aðstoða við greiningu á sjúkdómi hans, verði ekki notað til óskyldra hluta. Þetta skiptir máli enda ein af burðarstoðum trúnaðarsambands læknis og sjúklings sem er einn af meginþáttunum heilbrigðiskerfisins.

Mér virðist, herra forseti, að hér sé því miður verið að búa til falskt öryggi. Það sést þegar komið er í 7. gr. þar sem segir í 2. mgr., með leyfi forseta:

,,Hafi lífsýnum verið safnað vegna þjónusturannsókna má ganga út frá ætluðu samþykki sjúklings fyrir því að lífsýnið verði vistað á lífsýnasafni.``

Ætluðu samþykki? Ég sé ekki betur, herra forseti, en að tryggingunni, sem sjúklingum er gefin í 2. gr. og reyndar líka með 1. málslið 9. gr., sé hér kippt til baka. Frv. opnar ótvírætt þann möguleika að sá sem leitar sér aðstoðar hjá lækni geti átt von á að lífsýni sem hann lætur af höndum til þess að auðvelda greiningu á sínum eigin sjúkdómi lendi í lífsýnabanka spítala eða einkafyrirtækja. Ég held að óhjákvæmilegt sé, herra forseti, að lesa þetta með hliðsjón af því að annars vegar er lífsýni partur af sjúkraskrá og hins vegar að upplýsingar úr sjúkraskrám megi færa í miðlægan gagnagrunn. Af því dreg ég þá ályktun að það verði heimilt, samkvæmt þessu --- nema því verði breytt í umfjöllun Alþingis, að vinna upplýsingar úr lífsýnum einstaklinga og flytja þær í miðlægan gagnagrunn. Það er mikilvægt að menn hafi það til hliðsjónar í umræðunni.

Ég tel algjört lágmark, þegar þetta er gert, að sjúklingur verði að heimila notkun á slíku sýni skriflega. Það tryggir a.m.k. að honum hafi verið gerð grein fyrir því að mögulegt sé að sýni, sem er tekið við þjónusturannsókn, verði sett á safn og notað til alls óskyldra rannsókna. Það verður að tryggja að hann viti um réttinn til þess að synja slíkri þátttöku.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hví í ósköpunum er ekki tekið fastar á þessu í frumvarpinu? Svona málsmeðferð er mjög óljós og getur skapað hvers konar rugling og óvissu í samskiptum læknis og sjúklings.

Ég held jafnframt, herra forseti, að rökstuðningurinn fyrir þessu sé á æði hálum ís. Ég held reyndar að höfundar frv. gerir sér grein fyrir því og það speglast vel í skýringum frv., t.d. undarlegri skilgreiningu á hinu ,,ætlaða samþykki``. Einu efnislegu rökin sem þar er að finna fyrir skilgreiningunni er eftirfarandi setning sem ég les, með leyfi forseta:

,,Hér er m.a. höfð hliðsjón af 9. gr. laga um réttindi sjúklinga.``

Og hvað segir, herra forseti, í 9. gr. laga um réttindi sjúklinga? Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Nú er sjúklingur meðvitundarlaus eða ástand hans að öðru leyti þannig að hann er ófær um að gefa til kynna vilja sinn varðandi meðferð sem telst bráðnauðsynleg. Í því tilviki skal taka samþykki hans sem gefið nema fyrir liggi örugg vitneskja um að hann hefði hafnað meðferðinni.``

Mér finnst, herra forseti, að þetta sé vægast sagt afar hæpin rökfræði. Ég skil ekki hvernig hægt er að nota sem rök fyrir þeirri málsmeðferð sem frv. leggur til, þá aðferð sem lögin mæla fyrir um að læknar eigi að viðhafa þegar þeir telja nauðsynlegt að grípa til ákveðinnar meðferðar, þegar líf er í hættu og viðkomandi sjúklingur er rænulaus. Ég get ekki fallist á að það sé leyfilegt að nota þessi rök.

Ég óska eftir því að hæstv. heilbrrh. skýri þetta út fyrir okkur. Ég fæ ekki með nokkru móti séð að þarna sé um eðlilegan samanburð að ræða. Í öðru tilvikinu er um að ræða meðvitundarlausan sjúkling og til að bjarga lífi hans gefa menn sér að hann sé sammála tiltekinni meðferð sem er nauðsynleg til þess að bjarga honum sjálfum. Þetta er ofur skiljanleg aðferð sem ég tel að þurfi ekki að skýra.

Í hinu tilvikinu er um að ræða fólk sem er með ráði og rænu og ef það hafnar ekki ákveðinni meðferð á sýnum úr því þá beri að telja það samþykkt meðferðinni. Eins og ég sagði áðan þá er þetta hæpið nema það sé algjörlega ljóst að fólkið viti af þessu. Í lögunum kemur hins vegar fram að af hálfu læknis þurfi ekki að greina sjúklingi frá því, það er ekki nauðsynlegt. Hann gæti kannski gert það af eigin hvötum en löggjafinn leggur ekki fyrir hann að gera það. Þar segir að viðkomandi geti synjað þátttökunni, enda hafi skriflegar upplýsingar um að slíkt kynni að hafa verið gert verið aðgengilegar.

Bíðum nú við, herra forseti. Skriflegar upplýsingar eiga að vera aðgengilegar. Hvernig? Eiga þær að hanga á spjaldi uppi á vegg á heilsugæslustöðinni sem sjúklingurinn kemur á? Eiga þær að vera í bæklingi sem hann þarf að finna sér til þess að lesa? Þarf hann að fara í ráðuneytið til þess að verða sér úti um þessar upplýsingar?

Herra forseti. Þetta er alls ekki boðlegt. Þrátt fyrir það sem hæstv. ráðherra sagði um að leggja ætti sérstakt fjármagn í að kynna sjúklingum þessa möguleika, hvenær á að gera það? Kannski í upphafi þegar lögin eru orðin að veruleika, þá á að gera átak. Það mun fljótt gleymast, ekki síst þar sem í áliti fjárlagaskrifstofu fjmrn. kemur fram að eyða eigi einni til tveimur milljónum í þetta. Herra forseti. Þetta gengur að sjálfsögðu alls ekki.

Mér finnst líka með fádæmum, herra forseti, að sjá skilgreiningu í 3. gr., 5. tölul., um upplýst og óþvingað samþykki. Þar segir að sá sem veitir samþykkið þurfi að vera upplýstur um markmiðið með töku lífsýnis, gagnsemi, áhættu og að lífsýnið verði varðveitt til frambúðar á lífsýnasafni til notkunar skv. 9. gr. Þetta leyfir hæstv. ráðuneyti sér að kalla upplýst samþykki. Þó liggur fyrir skilgreining í lögum um réttindi sjúklinga á því hvað teljist upplýst samþykki. Samkvæmt þeirri grein, þ.e. 10. gr. laga um réttindi sjúklinga, segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sjúklingi skal gerð grein fyrir því að hann geti hafnað þátttöku í vísindarannsókn og hann geti hvenær sem er hætt þátttöku eftir að hún er hafin.``

Þetta er, herra forseti, allt annað en segir í frv. til laga um lífsýnasöfn um upplýst samþykki og það er óásættanlegt. Þetta er í blóra við það sem segir m.a. í reglugerð ráðuneytisins sjálfs um heilbrigðisrannsóknir. Þetta tengist þeim deilum sem hæstv. ráðherra greindi okkur frá áðan og kemur fram í því að þetta frv. heimilar ekki að láta eyða lífsýni. Með öðrum orðum getur maður lent í þeirri stöðu að maður kemur til þess að gefa blóð, blóðið verði skimað og til verði lífsýni. Á grundvelli þess væri hægt að vinna upplýsingar og þær fengjust ekki dregnar til baka. Þetta er stórhættulegt, herra forseti.

Tímans vegna get ég ekki farið ítarlega í ýmis önnur atriði en eitt og annað er óhjákvæmilegt að ræða. Í 9. gr. er sagt að stjórn lífsýnasafns geti, eftir að hafa fengið samþykki tölvunefndar og eftir atvikum vísindasiðanefndar, heimilað notkun lífsýna í öðrum tilgangi en ætlað var.

Bíðum nú við. Hvað er hér á ferðinni, herra forseti? Samkvæmt grg. eru tiltekin dæmi. Og dæmin eru hver? Þau gætu tengst erfðamálum eða laganauðsyn. Hvað felst í orðinu laganauðsyn, herra forseti? Af hverju talar hæstv. ráðherra ekki skýrar?

Gæti það verið maður, ásakaður um glæp og ætti það á hættu að lífsýnið yrði notað gegn honum? Ég leyfi mér aftur að taka dæmið af blóðgjafanum. Maður kemur til þess að gefa blóð, kemur af fullkomlega frjálsum vilja og af göfugum hvötum en við það verður til lífsýni sem mögulega yrði notað gegn honum síðar.

[17:30]

Hvað er hér á ferðinni, herra forseti? Hér er á ferðinni upphaf að lífsýnabanka sem lögreglan gæti notað, eins konar DNA-banka sem lögregluyfirvöld í hverju landinu á fætur öðru hafa óskað eftir að fá en ekkert land hefur veitt heimild fyrir.

Þetta, herra forseti, er stórhættulegt ákvæði. Ég vil ekki gera hæstv. ráðherra upp neinar hvatir en mér sýnist orðalagið á þessu vera þannig að menn séu að fela þetta með kansellístíl þegar fyrir liggur að hér er ekki verið að gera neitt annað en að opna þann möguleika að settur verði upp eins konar lífsýnabanki sem lögreglan gæti átt aðild að. Ég er því algjörlega mótfallinn, herra forseti.

Ég held þess vegna að í frv. séu a.m.k. þrjú stórhættuleg ákvæði sem þurfi að skoða verulega vel. Ég vona satt að segja, herra forseti, að þetta frv. verði ekki samþykkt að óbreyttu og mun svo sannarlega leggja mitt af mörkum til að svo verði ekki. Ég tel að hér sé um mjög vanhugsað verk að ræða og það geti raunverulega stefnt gegn því sem við höfum talið að væri eðlileg vernd borgaranna í ríki okkar. Ég held þess vegna að hæstv. ráðherra ætti að hugsa sinn gang áður en hann reynir að þrýsta þessu í gegnum þingið.