Lífsýnasöfn

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:42:47 (691)

1998-10-22 18:42:47# 123. lþ. 16.5 fundur 121. mál: #A lífsýnasöfn# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var afar óheppilegt svar. Og ég er viss um að það hefur staðfest verstu grunsemdir allra þeirra sem staddir eru í þessum sal.

Hæstv. ráðherra sagði: Ef svo vildi til að það fyndist stökkbreyting í erfðaefni blóðdropa sem ég hef látið af höndum við þjónusturannsóknir, þá væri gott að geta átt það til þess að geta kannað það síðar og leitað uppi þennan mann sem hefði þessa stökkbreytingu í blóði sínu.

Ég veit að vísu að hæstv. ráðherra tekur þetta einungis sem dæmi en í þessu felst einmitt hrollvekjan. Að í gegnum þjónustu heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa verði á tiltölulega skömmum tíma safnað sýnum úr sérhverjum Íslendingi og erfðaefni þeirra allra verði greind. Hvað verður síðan gert með það? Á kannski að setja það í miðlægan gagnagrunn og selja þessar upplýsingar? Er það kannski æfingin sem felst í þessu öllu saman, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson upplýsti fyrir þingheim áðan, og var auðvitað nýtt fyrir hinum bernska huga þess þingmanns sem hér talar?