Vatnajökulsþjóðgarður

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 18:56:28 (695)

1998-10-22 18:56:28# 123. lþ. 16.7 fundur 16. mál: #A þjóðgarðar á miðhálendinu# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[18:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það hafa staðið harðvítugar deilur um miðhálendið. Þær hafa snúið að landnýtingu, eignarhaldi og stjórnsýslu. Það er hægt að hugsa sér ýmsar leiðir til að leiða þær deilur til lykta. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um þær. Ég hef sjálfur sett fram tilteknar skoðanir á öllum þessum málum.

Þegar þessi tillaga hv. þm. kom til umræðu á síðasta þingi átti ég þess ekki kost að taka þátt í þeim umræðum. Ég vil þess vegna segja það hér að ég tel að hugmynd hv. þm. sé vel fallin að sínu leyti til þess að svara öllum þeim spurningum sem snúa að þessum þremur þáttum sem ég nefndi áðan og menn hafa deilt um. Ég get ekki dæmt um það hvort hún sé rökrétt framhald af því svæðisskipulagi sem liggur fyrir um miðhálendið en eigi að síður held ég að hún mundi a.m.k. svara að flestu leyti þeim hugmyndum sem ég hef haft um hvernig beri að fara með miðhálendið.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé æskilegt að fjölga þjóðgörðum. Meðan ég var umhvrh. varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að eiga frumkvæði að því að stofna einn nýjan þjóðgarð á Snæfellsnesi. Ég held að þeir fjórir sem hv. þm. gerir tillögu um yrðu mjög kærkomin viðbót og mundu jafnframt vera vel sniðnir að verndarþörfum miðhálendisins. Þess vegna get ég sagt fyrir mína parta og a.m.k. hluta míns þingflokks, án þess að við höfum rætt þetta út í hörgul þar, að þessi hugmynd nýtur stuðnings míns og ýmissa annarra vandamanna minna.