Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:03:09 (698)

1998-10-22 19:03:09# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., Flm. GÞÞ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:03]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis. Þetta er afskaplega hógvær tillaga sem miðar að því að færa verslun til þeirra sem ættu helst að sjá um verslun og sömuleiðis að afla ríkissjóði nokkurra tekna með því að leggja niður stofnun sem við þurfum lítið á að halda og þar af leiðandi spara líka nokkur ríkisútgjöld.

Eins og fram kemur í greinargerðinni hefur hið opinbera á undanförnum árum og áratugum verið að draga sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum þar sem talið er að einstaklingar og fyrirtæki geti sinnt viðkomandi starfsemi betur eða í það minnsta ekki verr. Nú er svo komið að til algerra undantekninga heyrir ef ríki eða sveitarfélög standa í verslunarrekstri. Ein þeirra undantekninga er sala á áfengum drykkjum til einstaklinga en ÁTVR hefur enn sem komið er einkaleyfi á því að selja almenningi áfengi í smásöluverslun. Lengi framan af var salan algerlega í höndum ÁTVR, þ.e. fyrirtækið átti eða leigði húsnæði undir áfengisverslunina víðs vegar um landið og einungis starfsfólk þess afgreiddi áfengið. Í seinni tíð hefur orðið nokkur breyting á þessu og á nokkrum stöðum á landinu sjá einkaaðilar um sölu á áfengum drykkjum fyrir ÁTVR með sérstöku samkomulagi við fyrirtækið. Ekki verður annað séð en að þetta fyrirkomulag hafi gefist vel.

Þetta leiðir hugann að þeirri spurningu hvers vegna ríkið eigi yfirleitt að standa í rekstri slíkra verslana. Erfitt er að finna rökin fyrir því en aftur á móti eru fjölmörg rök gegn því. Fyrst skal nefna að einkaaðilar hafa séð um rekstur slíkra verslana með góðum árangri. Það er einmitt svolítið athyglisvert að fylgjast með því að þegar auknar kröfur koma á hendur stofnuninni um að bæta þjónustuna og setja upp fleiri útsölustaði hefur stofnunin séð hagkvæmasta kostinn í því að semja við einkaaðila um slíkt, oft að undangengnu útboði og nú eru að ég held um 11 útsölustaðir ÁTVR með þessu rekstrarfyrirkomulagi. Í öðru lagi er aðilum eins og verslunarmiðstöðvum og byggðarlögum mismunað eftir staðsetningu útibúa. Það er bæði hægt að sjá það á höfuðborgarsvæðinu sem og á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu sjáum við að verslanir og verslunarmiðstöðvar heyja harða baráttu í harðri samkeppni og það er augljóslega mjög misjafnt komið á fyrir þessum aðilum eftir því hvort þeir geta boðið upp á þessa þjónustu eða ekki. Sömuleiðis er þetta kannski enn meira áberandi þegar menn skoða landsbyggðina --- það var nú mikil umræða um stöðu landsbyggðarinnar í dag --- því þar er gríðarlega mikil mismunun sem bitnar sérstaklega á þeim stöðum sem eru að reyna að byggja upp sína ferðaþjónustu ef þeir geta ekki boðið upp á þjónustu sem þessa. Í þriðja lagi má nefna kostnaðinn af versluninni. Ólíklegt má telja að ríkisfyrirtæki reki þessar verslanir á hagkvæmari hátt en einkaaðilar mundu gera. Má í þessu sambandi benda á að fasteignir ÁTVR eru nú á bókfærðu verði í ríkisreikningi 700 millj. kr. Og ef menn taka allar eignirnar sem eru teknar með í ársreikningum ÁTVR, þ.e. áhöld og tæki, eignir í öðrum fyrirtækjum, bílakost og annað slíkt, þá eru þetta rúmlega 820 millj. kr. á bókfærðu verði. Það segir sig sjálft að fjármunir sem fengjust með sölu þessara fasteigna eða eigna, hvort heldur þeirra allra eða nokkurra, mundu nýtast ríkissjóði vel. Sömuleiðis mundi ríkið spara verulegan hluta þess fjár sem nú er varið í rekstur ÁTVR ef þessi breyting næði fram að ganga.

Það má líka nefna að mismunun er ekki einungis á milli byggðarlaga og verslunarmiðstöðva því ef einn ríkisrekinn aðili sér um alla smásölu þá ræður hann eðli málsins samkvæmt hvaða vara er á boðstólum þannig að auðvelt er að sjá að mikil hætta er á mismunun á milli einstakra innflytjenda og framleiðenda. Ég er ekki að segja að sú mismunun sé til staðar en sú hætta er vissulega fyrir hendi.

Þó svo að þetta mál mundi ná fram að ganga gæti bæði ríkisvaldið og sveitarfélögin náð öllum þeim markmiðum sem þau hafa sett sér í áfengismálum. Hér er ekki gert ráð fyrir breytingu eða tillögu um breytingu á áfengisstefnu. Það eina sem mundi breytast er að verslunin yrði í höndum þeirra sem eiga að sjá um verslun, þ.e. einkaaðila, og að ekki yrði um að ræða eins sterkt skömmtunarvald á þessari þjónustu af hendi hins opinbera og nú er. Leyfi til að selja áfengi yrði veitt af sveitarstjórnum með svipuðum hætti og leyfi til vínveitingahúsa.

Ef við skoðum hvernig þessi mál hafa þróast þá voru nú nýverið samþykkt ný áfengislög. Helsta breytingin í þeirri löggjöf frá þeirri eldri er sú að í fyrsta lagi verður rekstur áfengisútsala háður eftirliti og sambærilegum skilyrðum og rekstur vínveitingastaða. Í öðru lagi að leyfisveitingar og yfirumsjón með allri verslun með áfengi er nú í höndum lögregluyfirvalda og jafnframt er leyfi til rekstrar vínveitingahúsa og áfengisútsala háð samþykki sveitarstjórna. Í rauninni er því allt til staðar nú þegar í löggjöfinni ef undan er skilið að í 10. gr. áfengislaganna er 1. mgr. svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur einkaleyfi til smásölu áfengis.``

Eftirlit og yfirumsjón er á hendi lögregluyfirvalda þó svo að þeir séu einir með leyfi til að stunda þessa starfsemi og sömuleiðis er leyfisveitingin háð samþykki viðkomandi sveitarstjórna.

Eins og ég ítreka enn og aftur er eina breytingin sem hér er farið fram á sú að fleiri, eða aðrir, mundu sjá um smásöluna eins og á öðrum sviðum en ekki er um að ræða breytingu á áfengisstefnu né heldur tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði. Það er svolítið fróðlegt að skoða þetta með tilliti til sögunnar því að Áfengisverslun ríkisins, fyrirrennari Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, var sett á laggirnar árið 1922 þegar bannlögunum var aflétt og Tóbakseinkasalan var stofnuð í byrjun fjórða áratugarins þegar menn voru mjög gjarnir á að setja einokunarlög og hin ýmsu höft í íslenska löggjöf. Þar má t.d. nefna einkaleyfi á síldarsölu, einkasölu á viðtækjum, einkarétt til útvarpsreksturs. Seinna komu ýmis lög og höft eins og einokun á sölu bifreiða, símtækja og annars slíks og einungis fyrir tíu árum síðan var ríkið með einokun á því að flytja inn eldspýtur. Það sem hins vegar allt þetta sem hér hefur verið nefnt og mörg fleiri höft og einokun sem verið hefur til staðar á Íslandi á sameiginlegt er að þessu hefur sem betur fer öllu verið aflétt.

Það er líka athyglisvert að engin krafa er um að færa ástandið í fyrra horf, enda mæla engin rök með því. En þó svo að margt hafi færst í frjálsræðisátt á þessu sviði --- nú er t.d. Áfengis- og tóbaksverslunin ekki lengur eini aðilinn sem má flytja inn áfengi --- stendur eftir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur einkaleyfi til smásölunnar. Þetta mál hlýtur að vera svolítið á dagskrá núna af þeirri einföldu ástæðu að nú eru fjölmargir, eins og oft áður, í biðröð eftir að fá þessa þjónustu og það er mikil sókn í að fá fleiri útsölur ÁTVR. Þá er spurningin hvort við förum áfram þá leið, því ég býst fastlega við því að menn muni vilja gæta jafnræðis og koma á fleiri áfengisútsölum þar sem þær vantar, að auka umsvif ríkisverslunar í landinu eða förum hina skynsömu leið að hafa þetta líkt og með vínveitingahús nú, þ.e. háð yfirumsjón og eftirliti lögregluyfirvalda og háð samþykki viðkomandi sveitarstjórna. Í leiðinni er svo hægt að sækja svolitla fjármuni fyrir ríkissjóð og ekki veitir af þó að við séum sem betur fer loksins að sjá nokkurn afgang hjá ríkissjóði um þessar mundir.

Það sem hefur vakið athygli mína frá því að fyrir lá að þessi tillaga yrði lögð fram og henni var dreift hér --- ég hef átt viðræður við menn innan þingsins og þá sem fylgjast mjög vel með --- er að mönnum þykir, eins og menn almennt orða það, að maður sé kaldur að leggja fram tillögu sem þessa. Það er umhugsunarefni að ef nýliði eins og ég, sem verð hérna í nokkra daga, hefði lagt fram tillögu um þægileg aukin ríkisútgjöld þá hefði það þótt sjálfsagt og eðlilegt og mönnum hefði ekki brugðið við það. En þegar hins vegar koma tillögur sem miða að því að færa hluti í frjálsræðisátt og ná kannski inn einhverjum tekjum sökum þess að lögð yrði niður ríkisstofnun sem er óþörf og ná sömuleiðis nokkrum sparnaði í ríkisrekstri, þá þykir það frekar bera vott um að viðkomandi sé helst til kaldur í málflutningi. Það er umhugsunarvert að þjóðmálaumræðan sé svona hjá okkur því að auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að menn leiti allra leiða til að draga saman umsvif hins opinbera og spara í ríkisrekstri og vonandi að greiða niður eitthvað af þeim skuldum sem ríkissjóður hefur safnað á undanförnum árum og áratugum.

Annað sem vekur athygli mína þegar maður hefur verið að spjalla um þessi er að flestir eru sammála, held ég, um að það sé rétt mat að í framtíðinni verði ÁTVR lagt niður. Það dettur í rauninni engum í hug að umsvif þeirrar stofnunar muni aukast nokkuð í framtíðinni né heldur að verksvið hennar verði stærra og því síður að ríkið fari út í smásöluverslun á einhverju öðru sviði en nú er.

Svo spyrja menn um tímann, hvort þetta sé rétti tíminn. Það hefur verið sagt um Íslendinga stundum sem kannski er ekki alveg sanngjarnt, en því hefur oft verið haldið fram að einu skiptin sem þeir færist í frjálsræðisátt í sínum eigin málum sé þegar þeir fá tilskipun að utan sökum alþjóðlegra samninga eða að einhver kreppa sé í þjóðfélaginu sem neyði menn til þess að færast í átt til frjálsræðis þannig að auðveldara sé að lifa af í þessu samfélagi. Nú er sú staða uppi að hvorugt er. Sem betur fer ríkir góðæri í þjóðfélaginu og það er sökum þess að menn hafa færst í átt til frjálsræðis og ekki er um að ræða neinar tilskipanir. En það reynir þá svolítið á þingheim hvort hann er tilbúinn til að stíga þetta skref og fækka ríkisstofnunum um eina, í það minnsta að straumlínulaga hana að skynsamlegum verkefnum eða því sem hún á að sinna, og færa verslunina til þeirra sem eru best færir um að sinna henni.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til síðari umræðu og hv. efh.- og viðskn.