Afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 19:21:39 (701)

1998-10-22 19:21:39# 123. lþ. 16.10 fundur 169. mál: #A afnám einokunar ríkisins á smásölu áfengis# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[19:21]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef upplýsingar um það að innan ÁTVR sé viss tregða á því að opna útibú þó svo að sveitarstjórnir hafi mælt með því og ég árétta það enn og aftur að til að færa þjónustu ÁTVR í nútímalegra form þá tel ég að nota eigi þann ramma sem stofnunin hefur og kannski að brýna hana innan frá. Auðvitað hafa sjálfstæðismenn burði til þess þar sem þeir eru í stjórnarmeirihluta og stjórna meira að segja því ráðuneyti sem stofnunin heyrir undir. Ég hjó sérstaklega eftir því að hv. þm. talaði um að hann væri kannski ungur og kaldur. Ber þá að skilja það svo að sjálfstæðismenn almennt, þingflokkurinn, styðji ekki þetta sprikl í ungum þingmanni? Ég hefði gjarnan viljað fá svör við því.

Að svo komnu vil ég bara árétta það að ég tel að möguleikarnir til að færa þjónustu ÁTVR í það form sem fólk og fjöldi sveitarstjórna sækist eftir séu innan rammans. Auðvitað er þetta spurning um peninga vegna þess að það er ekkert smámál að komast inn í umsetningu á 10 milljarða dæmi fyrir hvaða fyrirtæki sem er, hvert svo sem formið er á því ef það er fært í frjálsræðisátt.