Greiðslur í þróunarsjóð EES

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:13:30 (719)

1998-11-02 15:13:30# 123. lþ. 17.2 fundur 79#B greiðslur í þróunarsjóð EES# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. utanrrh. vegna deilu sem upp er komin um áframhaldandi greiðslur í svokallaðan þróunarsjóð í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þ.e. skv. bókun 38 með vísan til 115.--117. gr. samningsins.

Spánverjar hafa eins og kunnugt er sett fram þá kröfu að EFTA-ríkin, þau sem aðild eiga að EES-samningnum, haldi áfram að greiða í þennan sjóð en skv. bókun 38 átti hann að vera tímabundinn á árabilinu 1993--1997. Íslendingar hafa þegar greitt verulegar fjárhæðir í þennan sjóð eða eitthvað af stærðargráðunni 300--400 millj. kr. og greiðslum átti að ljúka um síðustu áramót.

Það kemur út af fyrir sig ekki á óvart að Spánverjar séu uppi með tiltölulega grímulausar hótanir um að blanda óskyldum málum í þessa deilu og hóta því að hindra aðild Íslendinga að ýmsum samstarfsverkefnum ef ekki verði um áframhaldandi greiðslur að ræða. Það er með öðrum orðum boðið upp á grímulaus hrossakaup um þetta mál. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra í þessu sambandi:

1. Hefur ríkisstjórn Íslands mótað endanlega stefnu í þessu sambandi?

2. Hefur ríkisstjórnin sett sér einhver samningsmarkmið ef gengið verður til samningaviðræðna við Evrópusambandið um þetta mál?

3. Telur ríkisstjórnin að það sé óhjákvæmilegt að EFTA-ríkin séu nauðbeygð til þess að taka þátt í samningaviðræðum við EES um kostnaðarþátttöku EFTA-ríkjanna í stækkunarferli Evrópusambandsins sem er nýtt mál, komið til sögunnar eftir að EES-samningurinn var gerður?

4. Hvað líður samræmingu á stefnu eða afstöðu EFTA-ríkjanna og þá einkum Íslands og Noregs í þessu sambandi? En þegar ber á því að ríkin muni ekki ná að stilla saman strengi eða verða samferða í þessari deilu.

Ég held að það sé ástæða til, herra forseti, að hæstv. utanrrh. upplýsi Alþingi aðeins um þetta mál.