Greiðslur í þróunarsjóð EES

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:17:57 (721)

1998-11-02 15:17:57# 123. lþ. 17.2 fundur 79#B greiðslur í þróunarsjóð EES# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin. Ég vil láta það álit mitt í ljós að ég tel að hér sé um mjög stórt mál að ræða og þá ekki síður það sem hæstv. utanrrh. upplýsti í svari sínu og mátti reyndar ráða af ummælum hans í viðtali við Morgunblaðið 16. október sl. að ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara í samningaviðræður við Evrópusambandið um hugsanlega þátttöku Íslendinga í greiðslu kostnaðar vegna stækkunar Evrópusambandsins. Það er mjög stórt mál og ekki séð fyrir endann á því til hvers það leiðir. Í raun er verið að tala um að taka upp alveg nýjar samningaviðræður um stöðu Íslands í þessu samhengi en eins og kunnugt er hafa menn í Evrópusambandinu miklar áhyggjur af þeim gríðarlegu fjármunum sem líklegt er að stækkun Evrópusambandsins muni hafa í för með sér. Ég spyr hæstv. utanrrh.: Er það vegna þess að ríkisstjórn Íslands túlki 115. gr. samningsins um EES þannig að á grundvelli þeirra ákvæða sem þar eru um efnahagslegt og félagslegt misræmi á svæðinu séum við nauðbeygð að taka á okkur þennan kostnað? Ef svo er, hvers vegna var þá ekki haft samráð við utanrmn. Alþingis og Alþingi um það stórmál að Íslendingar væru að fara inn í nýtt samningaviðræðuferli um þessi efni?