Kjaradeila meinatækna

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:23:42 (725)

1998-11-02 15:23:42# 123. lþ. 17.2 fundur 80#B kjaradeila meinatækna# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:23]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það kom fram í fréttum í dag að lífi og heilsu fólks sé stefnt í hættu á Landspítalanum vegna stöðunnar í kjaradeilu meinatækna. Í dag er aðeins lítið brot meinatækna að störfum á Landspítalanum, þ.e. fimm meinatæknar starfandi þar sem 45 eru venjulega að störfum. Þessir fimm eru óvanir þeim störfum sem þeir eru að sinna, hafa ekki starfað við þau lengi. Læknar tala um háskalegt ástand og neyðarástand, eins og sést í DV í morgun. Læknaráðið lýsti yfir áhyggjum á fundi í gær og það er ljóst að ákveðnir sjúklingar eru mögulega í lífshættu þar sem þessir fáu meinatæknar anna ekki að fylgjast með þeim.

Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir á rannsóknardeild Landspítalans, og fleiri sem komið hafa að þessari deilu telja að hún leysist ekki án þess að fjmrh. og jafnvel forsrh. komi að málinu. Að deilan leysist ekki nema til komi aukið fjármagn. Enginn fundur hefur verið boðaður í deilunni og það er ljóst að hana verður að leysa fljótt. Það er alvarlegt ástand nú þegar og mun versna. Það er bráðavakt á Landspítalanum í dag og verður einnig á morgun og við skulum bara vona að ekkert alvarlegt slys verði eða alvarlegt ástand komi upp. Ég spyr því hæstv. fjmrh.: Mun hann grípa inn í til að aflétta þessu ástandi? Mun koma til aukið fjármagn til að leysa þessa deilu?