Aðgerðir í þágu sauðfjárbænda vegna verðfalls á gærum

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 15:44:21 (740)

1998-11-02 15:44:21# 123. lþ. 17.2 fundur 83#B aðgerðir í þágu sauðfjárbænda vegna verðfalls á gærum# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[15:44]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar er að gífurlegt verðhrun varð á gærum í sumar og í haust. Ástandið í Asíu hafði mest áhrif í byrjun, einkum í Kóreu sem hefur verið stór kaupandi á hrágærum. Síðan bættist við ástandið í Rússlandi en sá markaður hefur alveg lokast. Rússar hafa einkum keypt unnar vörur úr gærum. Loks hefur efnahagslægðin á Vesturlöndum samfara gífurlegu offramboði á þeim mörkuðum leitt til þess að verð hefur lækkað gífurlega ef gærur seljast þá á annað borð.

Verðfall á hrágærum er u.þ.b. 80% og má reikna með að verð til bænda lækki sem því nemur. Ef miðað er við að gæran sé rúmlega þrjú kíló að meðaltali og verðið hafi verið um 200 kr. á hvert kíló þýðir 80% lækkun að verðið fellur úr 200 kr. í u.þ.b. 60 kr. á hvert kíló eða úr rúmum 600 kr. í 180 kr. fyrir hverja gæru. Ef til falla um 500 þús. gærur gerir það 300 millj. kr. tekjutap fyrir landbúnaðinn eða bændur. Ljóst er að þetta er gífurlegt áfall. Samtímis liggur fyrir skýrsla um mjög bága afkomu sauðfjárbænda. Þess má geta að verð á ull hefur einnig farið lækkandi að undanförnu.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. landbrh.: Hyggst ríkisstjórnin grípa til aðgerða til stuðnings sauðfjárbændum vegna þess áfalls sem þetta verðhrun á gærum er?