Virðisaukaskattur

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 16:04:12 (748)

1998-11-02 16:04:12# 123. lþ. 17.13 fundur 46. mál: #A virðisaukaskattur# (veiðileyfi í ám og vötnum) frv., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[16:04]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem ég flyt ásamt hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Frv. þetta um breytingar á virðisaukaskattslögunum felur í sér að við 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er sala veiðileyfa í ám og vötnum einnig skattskyld.

Með öðrum orðum, herra forseti, felur frv. í sér skattskyldu á sölu veiðileyfa í ám og vötnum.

Þegar frv. til laga um virðisaukaskatt var lagt fram í upphafi árið 1986 var gert ráð fyrir að sala veiðileyfa væri virðisaukaskyld starfsemi og þegar frv. var lagt fram á 110. löggjafarþingi 1987--1988 var einnig gert ráð fyrir að sala veiðileyfa væri virðisaukaskattskyld en þetta breyttist í meðförum þingsins að undirlagi meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar sem víkkaði mjög út gildissvið undanþágu 8. tölul. í virðisaukaskattslögunum, í stað undanþágu fyrir útleigu íbúðarhúsnæðis var ákvæðið látið ná til fasteignaleigu sem slíkrar og þar með var sala veiðileyfa í ám og vötnum undanskilin virðisaukaskatti.

Ég hygg að ekki hafi farið mikið fyrir þessum brtt. vegna þess að þetta var ekki mikið rætt í þingsal eftir að meiri hluti fjárhags- og viðskiptanefndar hafði breytt frv. eins og hæstv. fjmrh. hafði þá lagt fram. Stundum hefur komið upp í umræðunni þegar menn eru að tala um að það vanti tekjur í ríkissjóð, sem oft og iðulega er, að rétt væri að veiðileyfi í ám og vötnum væru virðisaukaskattskyld en það hefur ekki náð fram að ganga enn sem komið er.

Ef frv. verður að lögum fellur 24,5% virðisaukaskattur á sölu veiðileyfa í ám og vötnum en frv. gerir ráð fyrir að sala veiðileyfa í ám og vötnum teljist virðisaukaskattskyld starfsemi þrátt fyrir að fasteignaleiga sé að öðru leyti undanþegin virðisaukaskatti.

Eins og málum er nú háttað varðandi virðisaukaskattinn eru undanþágur til staðar í virðisaukaskattskerfinu. Þær lúta aðallega að þjónustu heilbrigðisstofnana, félagslegri þjónustu, rekstri menntastofnana, menningu, listum og góðgerðarstarfsemi en nauðþurftir heimilanna, svo sem matvara og ýmis þjónusta er virðisaukaskattskyld. Ég tel að meðan svo er geti fátt réttlætt að laxveiðileyfi séu undanþegin virðisaukaskatti á sama tíma og brýnustu nauðþurftir heimilanna bera virðisaukaskatt.

Nefna má í þessu sambandi að annar af flm. þessa frv., hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, spurði hæstv. fjmrh. í fyrirspurnatíma í þinginu um undanþágu frá virðisaukaskatti vegna laxveiða og minnti hv. þm. á að hæstv. fjmrh. hafði hafnað því að virðisaukaskattur yrði felldur niður af handverksmunum úr íslensku efni sem er stórmál fyrir handverksfólk til sveita en margar bændakonur eru að vinna slíka muni. Handverksmunir eru sem sagt virðisaukaskattskyld vara meðan, eins og áður hefur verið getið, sala veiðileyfa í ám og vötnum er undanþegin virðisaukaskatti.

Herra forseti. Nái þetta frv. fram að ganga má ætla að það gefi ríkissjóði í auknum tekjum um 50--100 millj. kr. sem telja verður betur varið til ýmissa þarfra verkefna á sviði félags- og heilbrigðismála en, eins og við búum við núna, að sala veiðileyfa sé undanþegin virðisaukaskatti og ríkissjóður verði af þeim tekjum sem hér um ræðir eða 50--100 millj. kr.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að orðlengja framsögu um þetta frv. en legg til að að lokinni umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.