Vegagerð í afskekktum landshlutum

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 16:43:59 (753)

1998-11-02 16:43:59# 123. lþ. 17.16 fundur 73. mál: #A vegagerð í afskekktum landshlutum# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[16:43]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sérstakt átak í vegagerð í afskekktum landshlutum. Tillagan er á þskj. 73 og er 73. mál þessa þings. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, 5. þm. Vestf. Tillögugreinin er svo hljóðandi:

,,Alþingi ályktar að gera skuli sérstakt átak til að ljúka á næstu þremur árum uppbyggingu og lagningu bundins slitlags á vegum sem tengja heila landshluta eða fjölmenn byggðarlög við meginþjóðvegakerfið. Á næstu þremur árum verði varið allt að 2.500 millj. kr. úr ríkissjóði til þessa verkefnis, til viðbótar fjármunum af vegáætlun, með það að markmiði að árið 2001 verði allir þéttbýlisstaðir þar sem íbúar eru 100 eða fleiri tengdir þjóðvegakerfi landsmanna með vegum með bundnu slitlagi.``

Hér er um endurflutning á þingmáli að ræða, herra forseti, sem fyrst var flutt á síðasta þingi. Það er spurning hvort hæstv. samgrh. er í húsinu, herra forseti, og mætti gera honum viðvart að hér sé komið til umræðu mál á hans sviði.

[16:45]

Það er ljóst, herra forseti, að þrátt fyrir bæði afgreiðslu vegáætlunar á síðasta vetri og þrátt fyrir mikla skýrslugerð hjá Byggðastofnun og fleiri aðilum um byggðamál þá er enn mjög langt í land að óbreyttu að viðunandi úrlausn fáist á þeim samgönguvandamálum sem þessi þáltill. er flutt til að taka á. Ég sé mig, herra forseti, því miður knúinn til að endurflytja hana og held reyndar að með hverju árinu sem líður verði það vandamál sem hér um ræðir alvarlegra og alvarlegra.

Ljóst er að enn er mikið verk óunnið í vegamálum hér á landi og langt í land, svo áratugum skiptir að óbreyttu, að vegakerfið allt komist í nútímalegt horf. Þótt mikið hafi áunnist hér í uppbyggingu vega á undanförnum 20--25 árum, eða frá því að framlög til vegamála og samgöngumála voru aukin verulega upp úr 1970, er enn gífurlegt verk fyrir höndum. Staðreyndin er sú að framtíðin og þróun mála hefur á þessum tíma einnig kallað á stærri og dýrari mannvirki sökum aukinnar umferðar. Það sem þótti fullnægjandi fyrir 20--30 árum er það á engan hátt í dag.

Sá þáttur vegamála sem hvað heitast brennur á þeim hluta landsmanna sem við býr er aðstæður þeirra landshluta og byggðarlaga sem tengjast þjóðvegakerfi landsmanna með malarvegum. Á korti sem birt er sem fylgiskjal með tillögunni má sjá þau svæði og þar sést að þetta gildir fyrst og fremst um landsvæði á Vestfjörðum og um vestanvert landið og síðan aftur á Norðausturlandi og Austfjörðum.

Þegar tillagan var flutt á síðasta þingi og kortið góða teiknað upp sem hér er birt sem fylgiskjal var reyndar enn smáblettur á Miðnorðurlandi sem var sambærilega settur hvað þetta varðaði, að þéttbýlisstaðir eða heil byggðarlög þurftu að aka um alllanga malarvegi til að tengjast meginþjóðvegakerfinu. Þetta átti við um Siglufjörð og jafnvel einnig Hofsós. En nú er þarna sem betur fer að verða mikil breyting á og ég kann ekki að nefna hvort það er á næsta ári eða a.m.k. alveg í nánd sá tími að allir þéttbýlisstaðir á Miðnorðurlandi verði komnir í nútímavegasamband, ef svo má að orði komast.

Eftir stendur að Vestfirðir, þ.e. allur Vestfjarðakjálkinn og nokkrir þéttbýlisstaðir á Vesturlandi, Snæfellsnesi, og síðan norðausturhorn landsins og kaflar --- að hluta til svæði á Austurlandi --- búa enn við þær aðstæður að þar er um lengri eða skemmri veg að fara sem liggur eftir ófullgerðum og óuppbyggðum malarvegum.

Það liggur í hlutarins eðli að eftir því sem meginhluti vegakerfisins batnar og akstur á bundnu slitlagi verður reglan en ekki undantekningin þá er aðstöðumunur þeirra sem eftir sitja og þurfa að sætta sig við malarvegina enn þá bagalegri. Kemur þar margt til. Í fyrsta lagi eru malarvegirnir lakari á allan hátt hvað varðar umferðaröryggi og akstur. Bílstjórar nú til dags eru unnvörpum að verða því afvanir, ef svo má að orði komast, að aka á malarvegum, hræðast þá jafnvel. Og það gerist æ algengara að þeir sem búa á slitlagsendunum verði varir við það að ferðafólk snýr við þegar það áttar sig á því að það er að leggja út í ferðalag sem færi fram eftir slíkum vegum. Nútímabílar, t.d. venjulegir fjölskyldubílar og fólksbílar eru alls ekki gerðir fyrir akstur á slíkum vegum. Þeir liggja undir stórskemmdum, ég tala nú ekki um ef vegirnir eru blautir og holóttir í rigningartíð á haustin, svo dæmi sé tekið.

Þetta eru auðvitað alvörumál sem snúa að umferðaröryggi og notagildi samgöngukerfisins, t.d. fyrir ferðamenn. En langbagalegast er þetta þó fyrir íbúa viðkomandi byggðarlaga sem þurfa að sætta sig við það að eiga allar sínar samgöngur á landi undir slíku vegakerfi. Notagildi þessara vega er stórskert og kemur það fram í miklu erfiðari samgöngum að vetri til, þar sem vegirnir eru ekki byggðir upp úr snjó og verður illa haldið opnum ef snjóþyngsli verða, eins og til að mynda gerst hefur nú þegar í vetrarbyrjun þessa árs, og eins kemur hitt til að á vorin eru þessir vegir oft um lengri eða skemmri tíma háðir þungatakmörkunum. Kveður svo rammt að í sumum tilvikum að heita má ómögulegt að stunda nokkra vöruflutninga með nútímasamgöngutækjum þar sem öxulþungi bifreiðanna án hleðslu er iðulega u.þ.b. sá sem leyfilegur er á vegunum. Má nefna dæmi um það að flutningabílar hefðu mátt fara með allt niður í 500 kílóa farm eftir vegunum, bílar sem ætlaðir eru til að flytja milli 20 og 30 tonn. Og má þá velta fyrir sér hagkvæmninni í því að senda þá 40 ferðir með 500 kíló í senn eftir vegunum.

Herra forseti. Það er alveg sama hvar á málið er litið, þetta ófremdarástand er orðið með öllu óþolandi. Það er ekki hægt að dæma byggðarlög og heila landshluta úr leik hvað samgöngur snertir með þessum hætti til frambúðar.

Það er enn rétt að minna á að fyrir nokkrum árum var tekin pólitísk ákvörðun um að leggja niður strandsiglingar með opinberum stuðningi á Íslandi. Það var þegar Ríkisskip voru lögð niður. Þar með hættu strandsiglingar á velflestar hafnir landsins og eftir standa nokkrar stórar hafnir sem viðkomustaðir skipafélaganna. Allir flutningar til annarra byggðarlaga hafa færst upp á land. Ekki síst á þetta einmitt við um þau byggðarlög sem búa við þær vegasamgöngur sem ég er að gera grein fyrir.

Enn síður er þetta ástand þolandi eftir að sú er orðin raunin að bæði aðflutningar, öll almenn neysluvara og varningur inn á þessi svæði, og í stórum stíl flutningar framleiðsluvara svæðisins á markað eiga að fara fram eftir þessum vegum. Útflutningsfyrirtæki á þessum svæðum verða fyrir stórtjóni á hverju ári vegna þess að þungatakmarkanir á vegum hafa í för með sér verulegan viðbótarkostnað og/eða jafnvel að fyrirtækin hreinlega koma ekki framleiðsluvöru sinni á markað. Við getum tekið þar sem dæmi framleiðendur á ferskum matvælum til útflutnings í Öxarfirði eða á Vestfjörðum. Fiskeldisfyrirtækin við Öxarfjörð, sem framleiða og senda á markað tvisvar, þrisvar í viku ferska hágæðavöru sem fer síðan með flugi á markaði bæði austan hafs og vestan, verða sérstaklega fyrir barðinu á þessum aðstæðum.

Ef við tækjum framleiðsluverðmæti útflutningsframleiðslunnar í heild á þessum svæðum, þ.e. á vestanverðu og norðaustanverðu landinu, sem hér eiga í hlut, þá telja þau upp á drjúgan hluta af útflutningsframleiðslu landsins eða líklega lauslega reiknað um 25--40 milljarða kr. Í grg. með tillögunni er reyndar sagt 20--30 milljarðar en ég hef farið yfir þetta aftur og ég er sannfærður um að þarna er um vanmat að ræða. Ef tekið er útflutningsverðmæti framleiðsluvara á svæðinu um norðaustanvert landið frá Húsavík til og með Vopnafirði og síðan á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum, og jafnvel staða á Snæfellsnesi og Austurlandi sem þarna má bæta við, þá er ljóst að við erum komin með drjúgan hluta af t.d. heildarútflutningsframleiðslu sjávarútvegsins, sem er í kringum 100 milljarðar kr. Það er því ekki þannig, herra forseti, að þjóðarbúið eigi ekki einhverra hagsmuna að gæta í því í sjálfu sér, fyrir utan aðstæður fólksins sem þessi byggðarlög byggir.

Þó að nokkrar framkvæmdir séu í gangi til að byggja upp þessa vegi samkvæmt vegáætlun, t.d. á leiðinni inn Djúp og á nokkrum stöðum á Vesturlandi, þá gengur það allt of hægt. Enn verra er ástandið ef litið til norðausturleiðarinnar frá Húsavík til Vopnafjarðar en framkvæmdir á því svæði eru fyrst og fremst fyrirhugaðar á síðustu árum núgildandi tólf ára langtímaáætlunar í vegagerð. Það er því verið að segja við fólkið í þessum byggðarlögum: Þið verðið að gjöra svo vel og bíða í tíu til tólf ár til að fá úrlausn á þessu vandamáli. Sú bið, herra forseti, er of löng. Og ég er ekki viss um að það verði mjög margir eftir til að þreyja biðina á enda ef ekki hillir undir skjótari úrlausn í þessum efnum.

Samt er það þannig að verkefnið er ekki stærra en svo að ef fjárveitingar fengjust af fjárlögum sem næmu 2,5--3 milljörðum kr. á jafnmörgum árum, eða þó þau væru fjögur, til viðbótar þeim fjármunum sem þarna eru samkvæmt vegáætlun, þá mætti ljúka þessu verkefni og hafa það sem markmið að koma öllum þéttbýlisstöðum landsins, þar sem íbúar eru t.d. 100 eða fleiri, í nútímavegasamband á þremur til fjórum árum. Ég held að ræða eigi um þessa hluti, herra forseti, eins og þeir eru, og þeir eru þannig að það er ekki lengur hægt að tala um að þessi byggðarlög séu í vegasambandi. Það væri alveg eins hægt að tala um kerruslóðirnar frá aldamótunum sem vegi eins og þessi ósköp.

Herra forseti. Ég held að ekki þurfi að rökstyðja mikilvægi þess og gildi að ráðast í úrbætur í þessum efnum. Mér finnst, herra forseti, allt tal um byggðamál og byggðaröskun og vanda í þeim efnum og möguleg úrræði stjórnvalda hálfbarnalegt og innstæðulaust þegar úrlausn á því vandamáli sem öllum ber saman um að standi landsbyggðinni mest fyrir þrifum --- og það eru samgöngurnar --- er ekki sinnt meira en raun ber vitni. Það er ljóst að þau byggðarlög sem hér um ræðir, t.d. Vestfirðir og vestanvert landið, eru nákvæmlega sömu byggðarlögin og hafa átt mest undir högg að sækja í byggðaþróun og eiga enn. Fólksflutningarnir af landsbyggðinni hafa tekið nýtt stökk af eðlilegum og skiljanlegum ástæðum. Með pólitískum ákvörðunum núna um nokkurra ára skeið hefur byggðaröskunin verið rækilega undirbyggð með því að raða öllum helstu stórframkvæmdum landsins á suðvesturhornið. Það eru pólitískar ákvarðanir, meðvitaðar ákvarðanir og engar tilviljanir að byggðaröskunin hefur nú tekið nýtt stökk svo nemur flutningum á tvö, þrjú þúsund manns á suðvesturhornið á hverju ári. Fyrir liggja útreikningar um að kostnaðurinn sem hér hlýst af uppbyggingu fyrir þetta fólk nemur milljónum á hvern mann. Frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð, herra forseti, held ég að vandfundin væri betri fjárfesting en sú að ráðast í úrbætur á þessu sviði og bæta þar með aðstæður fólks og mannlífs í þessum byggðarlögum og vonandi draga eitthvað úr þeim mikla herkostnaði sem byggðaröskunin er fyrir þjóðarbúið allt.

Það stendur einnig til, herra forseti, að gera kjördæmabreytingar og jafnvel stækka stórlega þá stjórnsýslueiningu í landinu sem kjördæmin eru og það væri fróðlegt að spyrja forsvarsmenn þeirra mála: Er ætlunin að gera þá breytingu að óbreyttum horfum í samgöngumálum landsins? Er ætlunin að búa til risakjördæmi sem taka yfir næstum hálft landið að óbreyttum samgönguaðstæðum í þeim kjördæmum? Eða eru menn tilbúnir til að líta á, einnig í samhengi við það mál, að gert verði sérstakt átak í þessum efnum? Ég mun lýsa eftir því, herra forseti, þegar --- eða ef --- umræður um það mál verða hér á þinginu.

Að síðustu held ég að menn eigi að gera sér það ljóst að tíminn sem er til stefnu til að grípa til aðgerða í þessu skyni er ekki mjög mikill. Hann er það ekki bæði vegna þess að eigi að koma byggð í þessum landshlutum til hjálpar verður að gera það á meðan hún er til staðar. Það er lítið gagn að því að leggja fína vegi til byggðarlaga á Vestfjörðum eða á norðausturhorni landsins þegar þau eru orðin tóm, nema ef menn vilja hafa það huggulegt þar í heimsóknum um eyðibyggðir þegar þar að kemur. En einnig vegna þess að ljóst er að fram undan eru gífurlega dýr verkefni á suðvesturhorni landsins sem vaxandi þrýstingur mun verða á um að ráðast í. Þar á ég við ýmis ytri samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu, mislæg gatnamót og brýr, fjarðaþveranir og guð má vita hvað, sem munu kosta milljarða og milljarðatugi króna. Og hafi ekki, áður en þær framkvæmdir skella á, náðst einhver árangur í að gera átak í samgöngumálum þessara afskekktu landshluta þá verður enn þá erfiðara að fá til þess stuðning þegar þar að kemur.

Herra forseti. Ég tel mig ekki þurfa í sjálfu sér að rökstyðja þetta mál frekar en leyfi mér að leggja til að að aflokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. samgn.