Ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi

Mánudaginn 02. nóvember 1998, kl. 17:16:03 (756)

1998-11-02 17:16:03# 123. lþ. 17.17 fundur 74. mál: #A ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 123. lþ.

[17:16]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að mæla fyrir þessari gagnmerku þáltill. og rökstyðja mál sitt jafn vel og raun bar vitni.

Samskipti Grænlendinga og Íslendinga hafa aukist mjög á síðustu árum og áratug er óhætt að segja og áhugi manna á landi og þjóð, þ.e. Grænlandi og þjóðinni sem þar býr, hefur aukist mjög á Íslandi. Vert er að þakka Vestnorræna þingmannaráðinu fyrir þetta en hv. þm. hefur verið ötull í því að berjast fyrir málefnum Vestur-Norðurlandanna og er vert að þakka honum og öðrum þingmönnum fyrir það starf.

Fyrir tæplega áratug voru tekin upp samskipti forsrh. Íslands og landstjórnarformanns og lögmanns Færeyinga. Það var gert af hæstv. forsrh. sem þá starfaði og var Steingrímur Hermannsson. Nú hefur hæstv. forsrh. Davíð Oddsson endurvakið þetta og fyrir stuttu voru hér einmitt Arnfinn Carlsberg, lögmaður Færeyinga, og Jonathan Motzfeldt, landsstjórnarmaður á Grænlandi, og þeir þinguðu um málefni þessara landa.

Ljóst er að við getum átt enn meiri samskipti og samvinnu við þessi lönd. Þau geta verið menningarleg og viðskiptaleg og í síðustu viku var einmitt haldin fyrsta vestnorræna kvikmyndavikan. Allt er þetta til þess að auka samskipti landanna og vekja Íslendinga til umhugsunar um það hvað við eigum margt sameiginlegt með þessum löndum.

Í þessum samskiptum er nauðsynlegt að huga að uppruna okkar og sögu og sjálfsagt að skrá hana og það er einmitt það sem þessi þáltill. fjallar um. Sögunni hefur ekki verið nægur gaumur gefinn. Það er helst á tyllidögum eins og þegar við minntumst þess að þúsund ár voru liðin frá komu Eiríks rauða til Grænlands en þá vaknaði áhugi manna um tíma á þessum málum en full ástæða er til þess að við höldum vöku okkar í þessum efnum.

Eins og fram kom í rökstuðningi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar er nú verið að vinna að ákaflega merkilegu og spennandi verkefni í Brattahlíð á Grænlandi þar sem til stendur að byggja upp þjóðveldisbæ og kirkju og ljúka því verki árið 2000. Einnig hefur verið unnið þar að mjög merkum fornleifauppgreftri sem tengist söguskýringunni og söguskráningunni. Arfleifðin er báðum þessum þjóðum sameiginleg, þ.e. Íslandi og Grænlandi, og söguritunin tengist landafundunum í Vesturheimi. Okkur ber að sýna sögunni ræktarsemi og Vestnorræna ráðið stóð einmitt fyrir mjög merkilegri ungmennaráðstefnu í sumar á Íslandi þar sem saman voru komin 150 ungmenni frá þessum þremur löndum á aldrinum 18--25 ára. Það kom einmitt fram í umræðum á þeirri ráðstefnu hve nauðsynlegt væri að halda til haga sögunni sem tengist þessum þjóðum.

Ég fagna þessari þáltill. og vonast til að hún nái fram að ganga á Alþingi.